Eimskipafélag Íslands seldi á síðasta ári hin 25 ára gömlu flutningaskip sín Goðafoss og Laxfoss til félagsins GMS. Ítarlega var fjallað um starfsemi GMS á BBC í mars , þar sem sagði að öryggi starfsmanna og mengunarvarnir við endurvinnslu skipa sem félagið festir kaup væri verulega ábótavant.

GMS hefur mótmælt fréttaflutningi BBC . Félagið segir ásakanirnar um að félagið reyni að komast hjá alþjóðlegum samningum um meðferð spilliefna, og að fyrirtæki sem þau versli við brjóti reglur um aðbúnað starfsfólks, vera æsifréttarmennsku sem þjóni einungis eigin hagsmunum þeirra sem hana setja áfram.

Eimskip sendi frá sér tilkynningu í gær um skipasöluna vegna fyrirspurnar RÚV um málið. Þar sagði að skipin væru í endurvinnslu á Indlandi. Skipin voru síðan seld til félaganna Malwi Ship Breaking Co no. 58 og Gihilwad Spip Breaking Co no. 87A, sem bæði starfa í Alang héraði á Indlandi. Þá sé GMS stærsti kaupandi í heimi á notuðum skipum.

Tóku ekki sjálf ákvörðun um endurvinnslu

Eimskip segir sjálft ekki hafa tekið ákvörðun um að skipin yrðu sett í endurvinnslu, en félagið leigði skipin í nokkurn tíma aftur af GMS meðan biðu eftir nýsmíðisskipum frá Kína. Skipunum var svo skilað til eiganda síns fyrr í vor en ætlað var vegna breyttra aðstæðna sökum heimsfaraldurs kórónuveirunnar. GMS hafi í kjölfarið sent skipin í endurvinnslu.

Jafnframt segir Eimskip að báðar endurvinnslustöðvarnar starfi samkvæmt alþjóðlegum samningi frá árinu 2009 kenndur við Hong Kong um örugga- og umhverfisvæna endurvinnslu skipa, sem bæði vestræn ríki sem og Indland hafi skrifað undir.

Loks hafi báðar stöðvarnar ISO vottanir um gæðastjórnun, umhverfisstjórnun og vinnuvernd, og segist Eimskip hafa fengið fullvissu um að skipin séu endurunnin í samræmi við gildandi reglur og ISO staðlana.

Vísað í bandaríska spennuþætti

Félagið Global Marketing System (GMS) er stærsta félagið í heimi sem sérhæfir sig í að vera milliliður milli skipafélaga og endurvinnslufyrirtækja. Er það aðalumfjöllunarefni mynda og greinaraðarinnar frá BBC sem ber yfirskriftina „Breaking Bad: Uncovering the Oil Industry´s Dirty Secret“ , en undirfyrirsögnina mætti útleggja sem uppljóstrun um óhrein leyndarmál olíuiðnaðarins.

Yfirfyrirsögnin er ljóslega vísun í þekkta sjónvarpsþáttaröð og niðurbrot skipanna í endurvinnslunni, en í umfjölluninni er farið ítarlega í hvernig skipafélög í löndum þar sem umhverfisreglur meina þeim að selja skip til niðurbrots, án þess að fjarlæga hættuleg og umhverfisskaðvænleg efni úr þeim, komast hjá reglunum.

Það er gert meðal annars með því að færa skipin úr skipaskrá eins lands í skipaskrá annars undir hentifánum landa þar sem ekki eru jafnviðamiklar umhverfisreglur, eins og Comorros eyjar og St. Kitts og Nevis eyja, nöfnum skipanna er breytt og skúffufélög í enn öðru landi halda utan um eignarhaldið.

Skip sem býður þess að komast í brotajárn í Alang skipakirkjugarðinum á Indlandi.
Skip sem býður þess að komast í brotajárn í Alang skipakirkjugarðinum á Indlandi.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

  • SS Norway býður þess að vera tekið upp í fjöru til að vera rifið niður í brotajárn.

Ólöglegt að senda í endurvinnslu án þess að fjarlægja spilliefni

Ólöglegt er fyrir bresk, bandarísk félög sem og félög í löndum evrópska efnahagssvæðisins að senda skip til endurvinnslu án þess að fjarlæga spilliefni úr þeim samkvæmt ítrustu reglum um meðferð og aðbúnað, en slíkar aðgerðir eru sagðar dýrar og tímafrekar.

Aðalmyndefni umfjöllunarinnar kemur frá hinum gríðarstóru skipakirkjugörðum í Alang í norðvesturhluta Indlands, þar sem mikill munur á flóði og fjöru hefur gert fyrirtækjum sem sinna brotajárnsstarfseminni kleyft að sigla skipunum langt upp í fjöru án þess að þurfa sérstakan dráttarbúnað til eins og í hefðbundnum skipasmíðastöðvum.

Í umfjölluninni er lýst mikilli mengun í kringum skipakirkjugarðana þar sem þungmálmar og ýmis konar hættuleg efni hafi komist í jarðveginn og hafið sé fljótandi í alls kyns skipaleyfum sem séu látin falla niður í fjöruna meðan vinnu við þau stendur.

Jafnframt er vitnað í íbúa sem segja að fiskgengd hafi minnkað mikið í hafinu kringum skipakirkjugarðana síðan þeim var komið upp fyrir nokkrum áratugum síðan sem og að líklega sé fiskurinn of eitraður til manneldis.

Loks er rætt við starfsmenn sem lýsa lélegum aðbúnaði, skorti á hlífðarfatnaði og slæmum kjörum, en jafnframt eigi ekki annarra kosta völ vegna skorts á atvinnutækifærum í fátækustu héruðum Indlands þaðan sem þeir koma.

Fullyrða starfsmennirnir að olíuborpallar sem keyptir hafi verið frá Bandaríkjunum hafi enn verið fullir af spilliefnum þegar þeir unnu að því að rífa þá niður frá árinu 2018.

Skipakirkjugarður í Alang héraði á Indlandi
Skipakirkjugarður í Alang héraði á Indlandi
© Aðsend mynd (AÐSEND)

  • Yfirlitsmynd frá ströndinni í Alang á Indlandi þar sem skipum er siglt upp á háflóði og þau svo rifin niður í brotajárn.

Hverfa af yfirborði jarðar á nokkrum vikum

Það tekur einungis nokkrar vikur að rífa hefðbundin skip og borpalla og koma brotajárninu í endurvinnslu í Alang skipakirkjugarðinum, en stærstu skipin hverfa af yfirborði jarðar á allt upp í ár.

Um helmingur fyrirtækja í skipagarðinum segjast nú fylgja áðurnefndum Hong Kong sáttmála um meðferð spilliefna og aðbúnað starfsmanna, og hefur töluverður fjöldi fyrirtækja á svæðinu nú byggt upp aðstöðu á þurru landi með steinsteyptu vinnusvæði til að halda áfram niðurrifinu á síðari stigum.

Eitt aðalumfjöllunarefni greinaflokksins snýst þó um hvernig GMS hafi komið að endurvinnslu stórra olíuborpalla og skipa sem geymd eru við Skotland meðan beðið er eftir að fá leyfi til að fjarlæga þau en skoska umhverfisstofnunin hafi stigið inn í því óttuðust að borpallarnir yrðu fluttir til niðurbrots í trássi við lög um að fjarlæga þurfi spilliefnin á öruggan hátt fyrst.

„Við fengum ábendingar um að það yrði ekki gert... svo við stöðvuðum flutning borpallanna,“ hefur BBC eftir Terry A´Hearn forstjóra skosku umhverfisstofnunarinnar Sepa. „Ef á að flytja þá eitthvert annað, þá verðum við að tryggja að þeir fari á réttan stað, þar sem unnið verði rétt með spilliefnin.“

Endurvinnsla í Alang á Indlandi
Endurvinnsla í Alang á Indlandi
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Saka BBC æsifréttamennsku sem þjóni eiginhagsmunum

GMS hefur hafnað því að hafa ætlað að komast hjá alþjóðasamningnum með því að flytja borpallana frá Skotlandi, og hefur lýst ásökununum sem æsifréttamennsku.

„Eigendurnir höfðu tryggt sér lögformlegar heimildir, tollskjöl og samþykkt frá yfirvöldum á staðnum,“ er haft eftir talsmanni GMS, sem segir félagið ekki hafa verið búið að ákveða að senda borpallana í endurvinnslu áður en umhverifsstofnunin steig inn í. „Þó kaupin á borpöllunum hafi farið fram á endurvinnsluvirði þeirra þá voru eigendurnir að meta ýmsa möguleika til rekstrar pallanna.“

Jafnframt segir GMS ásakanir um slæman aðbúnað í skipakirkjugarði Hariyana fyrirtækisins þar sem starfsmennirnir unnu sem rætt var við undir nafnleynd.

„Við þökkum fyrir tækifærið til að leiðrétta allan misskilning og vilhalla umfjöllun sem knúin er áfram af vel fjármögnuðum einstaklingum og hópum sem eru fyrst og fremst að þjóna eigin hagsmunum og bera ábyrgð á því að setja fram skakka mynd af sannleikanum.“