Thelma Jónsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Markaðsstofu Hafnarfjarðar og hóf störf þann 1. apríl síðastliðinn, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Thelma er með MBA próf frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í markaðssamskiptum frá Freie Universität í Berlín. Hún starfaði áður sem rekstrarstjóri fataverkefnis Rauða kross Íslands og markaðs- og kynningarstjóri hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.

Thelma hefur einnig látið til sín taka í ýmis konar félagsstarfi undanfarin ár, þá einkum hjá FH þar sem hún situr nú í aðalstjórn, en var einnig formaður foreldraráðs Flensborgarskólans og sat þá jafnframt í skólanefnd.

Thelma er gift Steinbirni Logasyni, grafískum hönnuði og kennara við Áslandsskóla og eiga þau tvo syni.

„Thelma tekur við daglegum rekstri og fjölbreyttum verkefnum sem snúa að eflingu atvinnulífs í Hafnarfirði svo sem skapa samráðsvettvang fyrir núverandi fyrirtæki í bænum og laða að ný fyrirtæki. Markaðsstofan er jafnframt brú á milli atvinnulífs og stjórnsýslu bæjarins. Í dag eru tæplega 100 fyrirtæki í Hafnarfirði aðilar að markaðsstofunni,“ segir í niðurlagi fréttatilkynningarinnar.