Fjárfestirinn Vincent Thenguiz hefur lagt fram 2,2 milljarða punda skaðabótakröfu á hendur Grant Thornton í Bretlandi, Kaupþingi, Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni, formanni slitastjórnar Kaupþings, Stephen John Akers og Hossein Hamedani, sem eru meðal eigenda Grant Thornton. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fjárfestinum.

Telur hann aðilana bera ábyrgð á tjóni sem hann varð fyrir vegna rannsóknar efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar (e. Serious Fraud Office) á lánveitingum Kaupþings til félaga á vegum hans og bróður hans, Robert Thenguiz. Bræðurnir voru vildarvinir Kaupþings í Bretlandi áður en bankinn fór í þrot og meðal helstu lántakenda þar. Robert Thenguiz átti á sama tíma stóran hlut í Existu, stærsta hluthafa Kaupþings.

Bræðurnir fóru í skaðabótamál gegn SFO vegna rannsóknarinnar sem endaði með samkomulagi milli þeirra og SFO um greiðslu skaðabóta. Fékk Vincent þá þrjár milljónir punda í sinn hlut, en Robert 1,5 milljónir punda.

Málinu er þó ekki lokið af hálfu Vincents sem telur ofangreinda aðila bera ábyrgð á tjóni sem hann varð fyrir vegna rannsóknarinnar. Telur hann það nema 2,2 milljörðum punda, sem jafngildir tæpum 430 milljörðum íslenskra króna.