Ísland er á sjötta ári samfellds hagvaxtar og greiningaraðilar sjá aukna þenslu í kortunum. Gangi hagspár eftir verður yfirstandandi hagvaxtarskeið áratugur í hið minnsta og eitt það lengsta á lýðveldistímanum.

Greiðsluafkoma ríkissjóðs er nátengd hagsveiflunni hverju sinni og fjármálastefna hins opinbera getur verið þensluhvetjandi og sveiflumagnandi eða aðhaldssöm og sveiflujafnandi. Efnahagsleg þróun ræður mestu um tekjuafkomu hins opinbera í samspili við skattkerfið, en skatttekjur aukast venjulega í takt við efnahagslegan uppgang. Fjármálastefnan hefur áhrif á heildareftirspurn í gegnum skattkerfið eða útgjaldahlið ríkisins og sveitarfélaga, en lægri skattar og aukin ríkisútgjöld hafa venjulega þensluhvetjandi áhrif.

Óljóst er hvaða stjórnmálaafl mun stýra ríkisfjármálum næstu árin, en í fimm ára fjármálastefnu og fjármálaáætlun fyrir hið opinbera, sem samþykkt var í fyrsta sinn á Alþingi i ágúst sl., eru hagstjórnarmarkmið fjármálastefnunnar og áskoranir næstu ára vel skilgreind. Fjármálafrumvarpið fyrir árið 2017 byggir á þeirri stefnu og áætlun.

Annars vegar er ríkissjóður enn í viðjum þungrar skuldabyrði og brýnt er að greiða niður opinberar skuldir til að tryggja að ríkið og sveitarfélög séu í stakk búin til að mæta ófyrirséðum áföllum og samdrætti í hagkerfinu.

Hins vegar er vaxandi þensla í kortunum, og því verða stjórnvöld að gæta aðhaldssemi í fjármálum ríkissjóðs og beita mótvægisaðgerðum til að sporna við örum eftirspurnarvexti, ofhitnun og harðri lendingu hagsveiflunnar.

Einnig þarf að sjá til þess að óreglulegir tekjuþættir, svo sem arðgreiðslur eða söluhagnaður eigna, fjármagni ekki varanlega útgjaldaliði. Þar fyrir utan eru áskoranir fram undan sem gætu haft áhrif á afkomu ríkissjóðs, svo sem óstöðugleiki á vinnumarkaði, hröð öldrun þjóðarinnar, ósjálfbær vöxtur ferðamanna, áframhaldandi styrking krónunnar og uppsöfnuð fjárfestingarþörf hins opinbera á íbúðamarkaði.

Aðhald næstu fimm árin

Fjármálastefna og fjármálaáætlun til fimm ára var samþykkt á Alþingi í fyrsta skipti í ágúst síðastliðinn. Stefnan felur í sér almenn markmið og strangar reglur um afkomu og skuldaþróun opinberra fjármála, þ.e. ríkisins og sveitarfélaga, en í áætluninni er að finna ítarlegri útfærslu á markmiðum stefnunnar. Með þessu á að festa í sessi umgjörð opinberra fjármála og innleiða meiri samhæfingu og aga í áætlunargerð opinberra aðila með áherslu á langtímastöðugleika í efnahagslífinu.

Hagstjórnarlegt markmið fjármálastefnunnar árin 2017 til 2021 felst í beitingu aðhaldssamrar fjármálastefnu til að koma til móts við eftirspurnarþenslu á næstu árum.

Í fjármálaáætluninni er stefnt að því að heildarafkoma hins opinbera verði a.m.k. 1% af VLF á ári yfir allt fimm ára tímabilið og að frumtekjur og frumgjöld vaxi ekki umfram vöxt VLF. Heildarskuldir verði komnar undir lögbundið hámark, 30% af VLF í árslok 2018 og skulu brúttóskuldir lækka um 15% í hið minnsta bæði að nafnvirði og sem hlutfall af VLF til 2021. Öllum óreglulegum einskiptis tekjum verði varið til niðurgreiðslu skulda og lækkunar á vaxtagjöldum.

Loks er stefnt að því að fjárfestingarstig ríkisins verði 1,3% af VLF árin 2017 og 2018 en hækki í 1,5% til loka tímabilsins. Á þetta að hægja á vexti heildareftirspurnar og draga úr hættu á óstöðugleika með afgangi á afkomu hins opinbera, hafa mildandi áhrif á verðbólgu og hafa áhrif til lækkunar á vaxtastigið með auknum þjóðhagslegum sparnaði hins opinbera

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .