Theo Hoen, forstjóri Marels, sagði á uppgjörsfundi félagsins í morgun að það hefði fengið góðan stuðning hjá íslensku bönkunum við endurfjármögnun og lengingu lána á öðrum fjórðungi. Markaðsaðstæður hefðu verið erfiðar en bankarnir hefðu staðið með félaginu og stuðningur þeirra hefði skipt miklu.

Fram kom á fundinum að Hoen og Erik Kaman, fjármálastjóri, voru báðir nokkuð sáttir við árangur félagsins á öðrum fjórðungi. Hoen lagði þó áherslu á að markaðsaðstæður væru erfiðar, en þeir fyndu þó fyrir að þær færu batnandi. Pantanir hefðu til að mynda aukist um 17%, en væru þó enn 15% undir því sem var fyrir ári.

Hoen sagði að markaðsaðstæður og margt annað væri nokkuð sem þeir gætu ekkert haft áhrif á, en öðru gætu þeir ráðið. Hann lagði áherslu á tvennt í því sambandi, hagræðingu og sjóðstreymi. Hann sagði starfsmönnum hafa fækkað um 13% eða yfir 500 manns og sparnaður á ári væri metinn á 25 milljónir evra. Til samanburðar má nefna að samanlagður sölu- og markaðskostnaður, þróunarkostnaður og stjórnunarkostnaður á fyrri helmingi ársins nam 91 milljón evra og salan var 132 milljónir evra.

Hoen sagði einnig að bætt sjóðstreymi hefði verið eitt að því sem hvað mest áhersla hefði verið lögð á fyrir þetta ár og þar hefði mikill árangur náðst. Kaman fór nánar út í það og sagði að þó að sjóðstreymi virtist vera neikvætt á fyrri helmingi ársins þá væru ýmsar skýringar á því sem flokkuðust undir einskiptiskostnað. Nefndi hann sérstaklega að mikill uppsafnaður vaxtakostnaður hefði verið greiddur.

Kaman sagði markmiðið að minnka fjármuni sem bundnir væru í rekstrinum um 25-30 milljónir evra og að mjög takmörkuð þörf væri á fjárfestingum hjá félaginu á þessu ári og næsta.

Hoen sagði að þessi fjórðungur hefði farið vel af stað og að í júlí hefðu þeir áfram fengið stór verkefni líkt og á öðrum ársfjórðungi. Hann sagði allar rannsóknir benda til að sá geiri sem Marel starfar í muni vaxa um 5-6% á næstu árum og að útlitið til lengri tíma væri jákvætt. Eftir því sem fólk hefði meira á milli handanna neytti það próteinríkari fæðu.