Theo Hoen, forstjóri Marel, og Árni Oddur Þórðarsson, stjórnarformaður fyrirtækisins, hringja bjöllunni sem hringir inn viðskiptadaginn á Nasdaq-markaðnum í New York í Bandaríkjunum á morgun. Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, verður viðstaddur ytra en hann mun bjóða þá og aðra fulltrúa Marel velkomna.

Fram kemur í tilkynningu frá Kauphöllinni að Marel sé í hópi stærstu útflutningsfyrirtækja landsins og í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á háþróuðum búnaði og kerfum til vinnslu á fiski, kjöti og kjúklingi.

Fimmtudaginn, 18. október, 2012 - kl. 13.15 til 13.30 að íslenskum tíma (9.15 til 9.30 að bandarískum tíma, EST). Fyrst munu ræður fara fram og á slaginu 13.30 verður bjöllunni hringt.

Páll og Theo Hoen flytja stuttar ræður áður en bjöllunni verður hringt. Útsendingin hefst klukkan 13:15 að íslenskum tíma og verður klukkunni hringt stundarfjórðungi síðar. Hægt verður að fylgjast með viðburðinum í beinni útsending á Netinu.