*

þriðjudagur, 21. september 2021
Frjáls verslun 28. desember 2018 18:04

Þér mun leiðast í sjálfkeyrandi bílum

Ástæðan fyrir því að sjálfkeyrandi bílar kalla á aukna gagnanotkun er önnur en fólk heldur segir sérfræðingur.

Höskuldur Marselíusarson
Eric Nielsen er sérfræðingur Ericsson um farsímakerfi, en félagið er eitt af leiðandi fyrirtækjum í uppsettningu þeirra.
Eva Björk Ægisdóttir

Einn af kostunum við 5G kerfið er að sögn Lars Nielsen einn helsti sérfræðingur Ericsson í farsímakerfum, að þar með opnast fyrir notkun á bandvídd sem nú er ekki nýtt. Eins og fjallað var um í Frjálsri verslun segir Lars að enginn þrói nú næstu kynslóð farsímakerfa á eftir 5G.

„Síminn hefur verið í framvarðarsveit þeirra fyrirtækja sem hafa samhliða því að byggja upp 700 megariða kerfi, það er 4G, fjárfest í vélbúnaði sem dugir fyrir 5G, þannig að það verður hægt að uppfæra hann einfaldlega með hugbúnaði. Þá mun sama kerfið geta talað við bæði 4G og 5G kerfi, á sama tíma og sama tíðnisviði, svo þegar kerfið verður sett upp á dreifðum svæðum hér á landi mun það ekki kosta mikið,“ segir Lars sem segir byltinguna felast í aukinni getu kerfisins á þéttbýlli svæðum.

„Það er í raun ekki vegna 5G sem við munum þurfa þéttara farsímakerfi í borgunum, heldur vegna þess að umferðin er stöðugt að aukast. Ef við erum með fjögur farsímamöstur, þá geta þær hver um sig þjónað ákveðnu magni af fólki á ákveðinni tíðni, en eftir því sem fólk horfir á meira af Netflix og Youtube myndböndum, þá er flutningsgeta kerfisins sífellt meira étin upp. Það sem 5G gerir er að opna fyrir notkun á nýrri bandvídd, á hærri tíðni, en þar uppi er meiri burðargeta, einfaldlega vegna þess að enginn er að nota hana nú þegar. Vandinn við hærri tíðni er hins vegar að drægnin er ekki jafnlöng, hún styttist og því mun þurfa að setja upp fleiri möstur.“

„Það sem við hjá Ericson leggjum þó áherslu á, er að mesti kostnaðurinn liggur ekki í tæknimöguleikum nýju kynslóðar farsímakerfanna, heldur vegna sífellt vaxandi eftirspurnar eftir flutningsgetu í kerfinu. Við notum alltaf meira og meira Facebook, Netflix og hvað þetta allt heitir, þá sérstaklega áhorf á myndbönd, sem taka mjög mikla flutningsgetu í farsímakerfum. Þörfin er því fyrst og fremst á að byggja upp flutningsgetuna, hvort sem það verður með eða án fimmtu kynslóðarinnar. Það sem við erum að reyna að gera með 5G kerfinu er að láta það vera eins og ódýrt og hægt er, í samanburði við 4G, að svara þessari auknu þörf.“

Umferðarljós og bílastæðakjallarar hverfa

Mikið hefur verið rætt um alnet hlutanna (Internet of Things á ensku), sjálfkeyrandi bíla og ýmislegt annað í þeim dúr, sem stundum hefur verið sagt hluti af svokallaðri fjórðu iðnbyltingu, Fimmta kynslóð farsímakerfa mun að sögn Lars hjálpa til við að auka sjálfvirkni allra hluta.

„Við erum þegar komin með það að bílaframleiðendur geta fylgst með hvernig bílunum þeirra gengur, svo þeir geta gripið strax inn í ef einhverjir gallar koma upp, eins og olíuleki úr tiltekinni slöngu, eða hvað það er, meðan fyrir fimm árum vissu þeir ekki einu sinni hver endanotandinn yrði þegar hann rann af verksmiðjugólfinu. Þá gátu þeir fyrst fengið veður af því ef eitthvað væri að þegar skýrslur fóru að berast frá verkstæðum tveimur árum seinna. Nú er viðskiptalíkanið hjá bílaframleiðendum að verða eins og er með prentaraiðnaðinn, sem græðir ekki lengur á því að selja prentarann sjálfan heldur blekhylkin í þá, og sama gildir með bílaiðnaðinn, þeir græða mest á varahlutunum.

Þessi tækni hjálpar þeim við gæðastjórnunina sem er að verða helmingur viðskiptalíkans hjá bílaframleiðendunum,“ segir Lars og hann horfir til framtíðar

„Næsta skrefið í bílaiðnaðinum eru sjálfkeyrandi bílar, en við höfum þegar byrjað í samstarfi við Scania að tengja saman marga bíla, þar sem til dæmis þrír eða fjórir vörubílar keyra mjög nálægt, hver á eftir öðrum, með rafrænni tengingu þannig að ef sá fyrsti bremsar þá bremsa allir fjórir bílarnir samstundis. Þannig hafa þeir þegar keyrt alla leið frá Noregi niður til Spánar, sem hluti af þróun staðlanna fyrir 5G. Nú þegar er svo í raun orðið mögulegt að hætta að nota umferðarljós, því ef þú ert með fjóra bíla sem koma samstundis að sömu gatnamótunum sitt úr hvorri áttinni, þá geta þeir talað sig saman um tímasetninguna. Það er að þessi bíll hægi aðeins á sér og annar auki hraðann, allt í gegnum samskipti yfir farsímakerfið.“

Breytir öllu samfélaginu

Svona samskipti sem og tengingar alls kyns vélbúnaðar við alnetið, svokallað alnet hlutanna, þar sem ýmis heimilistæki geta verið í samskiptum hvert við annað eða út á alnetið, eins og ísskápar sem panta í matinn fyrir heimilið eða annað, taka þó ekki mikla bandvídd að sögn Lars.

„Þetta mun ekki einungis breyta bílaiðnaðinum, heldur samfélaginu öllu. Þegar fólk segir að þörf sé á því að byggja fleiri bílastæðageymslur, eða mislæg gatnamót, þá getum við núna sagt, nei, þess þarf ekki. Í framtíðinni getum við jafnvel útrýmt öllum bílastæðahúsum,“ segir Lars og nefnir sem dæmi um að bílarnir geti sinnt öðrum erindum eftir að búið er að koma okkur á áfangastað.

„Fyndna hliðin á þessu er að það er ekki sjálfstýringin sjálf sem kallar á svo mikla bandvídd að það þurfi fimmtu kynslóð farsímakerfa. Heldur að þegar bíllinn verður farinn að keyra af sjálfu sér, hvað ætlar þú að vera að gera á meðan? Þér mun leiðast óendanlega og því viltu geta horft á bíómynd í gegnum Netflix eða eitthvað, og það verður það sem knýr á um meiri flutningsgetu í kerfinu.“

Nánar má lesa um málið í Frjálsri verslun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.