Theresa May, formaður breska Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Bretlands, hefur staðið af sér leynilega vantraustskosningu eigin þingflokks með 200 atkvæðum gegn 117.

Ljóst er því að kjósi hún að sitja áfram, og verði útgönguferli Bretlands úr Evrópusambandinu ekki seinkað, mun hún leiða landið út úr sambandinu, þar sem ekki er hægt að knýja fram aðra slíka atkvæðagreiðslu næsta árið.

May kemur þó ekki ólöskuð úr kosningunni, en hún lofaði í aðdraganda hennar að hún myndi ekki leiða flokkinn fyrir næstu þingkosningar árið 2022, þrátt fyrir að hún vildi það innst inni. Hún svaraði hinsvegar ekki spurningu um hvort hún útilokaði að leiða flokkinn ef til kosninga yrði boðað fyrir lok kjörtímabilsins.

Framtíð Brexit áfram óviss
Þá er allskostar óvíst hver framtíð Brexit-samnings hennar verður, en hún frestaði kosningu um hann í þinginu á mánudag þar sem nær öruggt þótti að hann yrði felldur.

Margir flokksfélagar May eru ósáttir við varaáætlunarákvæði samningsins í málefnum Norður-Írlands, en eins og það stendur í samningnum myndi það í raun þýða að Bretland yrði áfram í tollabandalagi Evrópusambandsins þangað til samningur næðist um landamæri Norður-Írlands og Írlands, eða bæði Bretland og Evrópusambandið sammæltumst um að þess væri ekki lengur þörf.

Mikið hefur gengið á í Brexit-málum síðustu daga. Auk frestunar kosningarinnar í þinginu á mánudag úrskurðaði Evrópudómstóllinn að Bretland þyrfti ekki samþykki annarra meðlimaríkja sambandsins til að hætta við Brexit, heldur gæti tekið ákvörðun um það einhliða.