TM Software hefur hafið innleiðingu á Theriak hugbúnaði fyrir lyfjameðhöndlun á sex sjúkrastofnunum í Þýskalandi. Theriak kerfið hefur vakið mikla athygli í fjölmiðlum í Þýskalandi á liðnum vikum í ljósi þess öryggis, sem það veitir í tengslum við lyfjameðferð, og rekstrarhagræðis fyrir sjúkrahús og apótek. Talið er að um 20 þúsund sjúklingar deyi á sjúkrahúsum í Þýskalandi árlega vegna rangrar lyfjagjafar.

TM Software hóf fyrst innleiðingu á Theriak hugbúnaði í St. Elisabeth sjúkrahúsinu í Oberhausen í Rühr héraði árið 2002. Fyrirtækið hefur einnig hafið innleiðingu á Theriak kerfi á sjúkrahúsum í nágrannaborgunum Gelchenkirchen og Bottrop. Ennfremur er Theriak kerfi komið í notkun hjá háskólasjúkrahúsinu Hamburg-Eppendorf og verður innan skamms innleitt hjá tveimur sjúkrahúsum í Essen. Um er að ræða sex staði þar sem innleiðingu er lokið, hún hafin eða að hefjast.

Theriak kerfið hefur vakið verulega athygli í fjölmiðlum í Þýskalandi í kjölfar kynningar sem háskólasjúkrahúsið í Hamborg hélt í lok janúar. Sjónvarpsstöðin NDR 3, sem sendir út í Hamborg og nágrenni, fjallaði um tæknina í kringum kerfið og fljótlega fylgdu ARD og ZDF, sem eru stærstu sjónvarpsstöðvarnar í landinu, í kjölfarið. Sjá frétt ARD um kerfið. Þar kemur fram sú staðreynd að í kringum 20 þúsund manns deyi á sjúkrastofnunum í Þýskalandi árlega af völdum rangrar lyfjagjafar. Þá verða fjölmörg önnur mistök á sjúkrahúsum sem má rekja til rangrar lyfjagjafar. Um 2.100 sjúkrastofnanir eru í Þýskalandi. Prentmiðlar hafa einnig vakið máls á tæknilausnum Theriak, má þar nefna marga af stærri prentmiðlum Þýskalands eins og Bild, Ärzte Zeitung, Hamburger Morgenpost og Die Welt.

TM Software hefur haslað sér völl með Theriak lausnir víðar í Evrópu og opnað söluskrifstofu í Tilburg í suðurhluta Hollands. Þá hefur félagið rekið útibú frá söluskrifstofunni í Lüdenscheid í Þýskalandi. Öflugt sölunet TM Software hefur orðið til þess að félagið hefur gert samninga víða um innleiðingu kerfisins. Má þar nefna samning við TweeSteden sjúkrahúsið í Hollandi um kaup á hugbúnaðinum Theriak Therapy Management árið 2003. Samningurinn kvað á um uppsetningu kerfisins á tveimur sjúkrahúsum og um 10 heilbrigðisstofnunum í Midden-Brabant héraði, sem hafa yfir að ráða um 2.400 sjúkrarúmum. Þá gerði TM Software einnig samning við Norður-Jótlandsamt í Danmörku um uppsetningu á lyfjagjafakerfinu Theriak Medication Management á öllum sjúkrastofnunum innan amtsins í lok síðasta árs. Norður-Jótlandsamt er stærsta amt Danmerkur en þar býr ríflega hálf milljón manna í 27 sveitarfélögum.

Theriak er sérhæfð hugbúnaðarlausn fyrir heilbrigðissvið með aðaláherslu á dreifingu, meðhöndlun og notkun lyfja innan sjúkrastofnana. Markmiðið með lausnum Theriak er að stuðla að auknu öryggi í lyfjameðferð, auka rekstrarhagræði sjúkrahúsa og apóteka og tryggja rétta meðhöndlun upplýsinga. Meginlausnir kerfisins eru Theriak Pharmacy Management og Theriak Therapy Management.

TM Software rekur starfsstöðvar í 12 löndum og þjónar rúmlega 1.500 viðskiptavinum um allan heim. Hjá fyrirtækinu starfa um 400 manns. TM Software er í fremstu röð við ráðgjöf, þróun og rekstur hugbúnaðar og býður fjölbreyttar lausnir í nánu samstarfi við virtustu upplýsingatæknifyrirtæki heims, svo sem Microsoft, IBM, Oracle, CA og Swisslog.