Opera og Vivaldi hafa augljósa tengingu við klassíska tónlist, en hið síðarnefnda vísar til ítalska tónskáldsins Antonio Vivaldi. Nöfnin voru þó ekki valin vegna þess að Jón sé sérstakur unnandi klassískrar tónlistar. „Við vorum að reyna að finna stutt nafn sem virkaði á öllum tungumálum og okkur fannst Opera-nafnið passa, því að internetið væri eins og ópera; mynd, texti, hljóð og svo framvegis.

Það var Geir, meðstofnandi minn, sem fann upp á því nafni. Þegar kom að Vivaldi var ég í sömu stöðu, að leita að nafni. En alveg eins og með Opera-nafnið var það stutt, einfalt og létt að muna. Að það tengist tónlist er bara fínt. Fólk gerir þá þessa tengingu á milli Opera og Vivaldi, sem er ekki slæmt fyrir okkur. Þegar kom síðan í ljós að enginn væri að nota Vivaldi og að ég gæti keypt lénið með .com, .net og .org endingum ákvað ég að gera það.“

Þú segir að þú hafir keypt lénin, hvað borgaðir þú mikið fyrir þau?

„Ætli það hafi ekki kostað um 100.000 dollara samtals. Ég borgaði hins vegar bara 5.000 dollara fyrir Opera-lénið á sínum tíma, þannig að þetta var nú aðeins dýrara,“ segir Jón. Hann segir mörg ný fyrirtæki velja sér nöfn sem séu löng, skrýtin eða erfitt að bera fram og stafsetja. Það sé því mikill fengur að finna nafn sem geti orðið að sterku vörumerki og þess vegna sjái hann ekki á eftir fénu. „Að geta fundið eitthvert nafn sem er hreint og beint sem er ekki erfitt að stafa, held ég að sé alveg þess virði.“

Nánar er rætt við Jón í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .