„Þessar kröfur eru úr öllu samhengi. Menn hafa verið að sjá að svigrúm til hækkana sé um fjögur prósent til að valda ekki verðbólgu. Við höfum lýst vonbrigðum yfir því að sambandið hafi farið fram með þessa óábyrgu kröfu þar sem efnahagslegt mat liggur ekki fyrir,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), í samtali við Fréttablaðið .

Starfsgreinasamband Íslands kynnti kröfugerð sína fyrir SA í gær, en kröfurnar miða að því að hækka lægstu laun upp í 300 þúsund krónur á mánuði innan þriggja ára og sérstaklega verði horft til gjaldeyrisskapandi atvinnugreina við launahækkanir.

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri sambandsins, segir í samtali við Fréttablaðið að viðbrögð SA veki síður en svo bjartsýni en nú fari þetta í ferli og aðilar fari að ræða saman. „Allt okkar fólk er tilbúið í átök.“

Þorsteinn segir hins vegar að hækkanir launa upp á 500 milljarða króna myndu gefa verðbólgu lausan tauminn. „Síðustu kjarasamningar báru árangur og eru ótvírætt mesta kaupmáttaraukning sem við höfum séð og við höfum sögulegt tækifæri nú til að byggja ofan á það,“ segir hann.