The Telegraph hefur tekið saman afstöðu evruríkjanna til þess hvort leyfa eigi Grikkjum að vera áfram í evrunni sama hvað, eða hvort betra gæti verið að úthýsa þeim úr evrusamstarfinu. Stórríki Evrópu eru innbyrðis ósammála um hvaða afstöðu er best að taka í þessu efni.

Þau lönd sem Telegraph kallar „harðlínufylkingu“ eru Þýskaland, Eistland, Finnland, Slóvakía, Holland, Slóvenía, Lettland, Belgía og Litháen. Þjóðverjar, með fjármálaráðherrann Wolfgang Schäuble í fararbroddi, hafa á undanförnum dögum afhjúpað mjög harða afstöðu gegn Grikkjum.

Schäuble hefur oft á tíðum notað orðbragð sem gefur til kynna að Grikkjum verði hent úr evrusamstarfinu gangist þeir ekki undir mjög ströng skilyrði fyrir neyðarlánveitingu. Francois Hollande, forseti Frakklands, hefur hins vegar verið álitinn stuðningsmaður Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, í samningaviðræðunum.

Lúxemborg, Malta, Portúgal, Spánn, Austurríki og Írland eru sögð hafa viljað halda Grikkjum í evrusamstarfinu. Frakkland, Ítalía og Kýpur eru síðan sögð hafa sett sig alfarið á móti „Grexit“, eða útgöngu Grikkja.