Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær funduðu forsvarsmenn Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) og Samtaka atvinnulífsins (SA) með forsvarsmönnum Seðlabankans og fleiri aðilum um afnám gjaldeyrishaftanna.

Eins og áður hefur komið fram hér á vb.is var fundað með hverjum aðila fyrir sig. Lengsti fundurinn var með starfsmönnum Seðlabankans.

Á fundunum voru fundargestum kynntar tillögur starfshóps á vegum SFF sem miða að afnámi haftanna. SA höfðu fyrr í vor kynnt sínar tillögur.

Eftir fundinn með starfsmönnum Seðlabankans mættu þeir Huginn Freyr Þorsteinsson, aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar, og Árni Þór Sigurðsson, þingmaður og formaður utanríkismálanefndar Alþingis til fundarins. Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs-, landbúnaðar-, efnahags-, viðskipta- og iðnaðarráðherra hafði verið boðaður á fundinn en var staddur erlendis.

Í kjölfarið var fundað með þeim Gylfa Zoega, hagfræðiprófessor og meðlim í peningastefnunefnd Seðlabankans, Páli Harðarsyni, forstjóra Kauphallarinnar, Magnús Harðarsyni, aðst.forstjóra Kauphallarinnar og Róbert Guðfinnsson, framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Þormóðs Ramma.

Loks mættu til fundarins þeir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, og Helgi Hjörvar, þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.