*

laugardagur, 18. janúar 2020
Innlent 17. október 2019 18:04

„Þetta blasti við“

Ketill Sigurjónsson furðaði sig á fjárfestingum lífeyrissjóða í kísiliðnaði sumarið 2016.

Ritstjórn
Ketill Sigurjónsson, sérfræðingur í orkumálum, varaði við fjárfestingu lífeyrissjóða í kísiliðnaði sumarið 2016.

 „Þarna er mikil óvissa og áhættan mikil, þess vegna er ég mjög undrandi á að lífeyrissjóðir séu að taka þátt í þessu,“ sagði Ketill Sigurjónsson, sérfræðingur í orkumálum, í frétt á Vísi.is frá miðju sumri 2016 um fjárfestingu íslenskra lífeyrissjóða í kísilveri United Silicon. Það sumar var uppbygging fjögurra kísilvera fyrirhuguð og framkvæmdir voru hafnar við tvö þeirra, United Silicon í Helguvík og  PCC á Bakka við Húsavík. 

Það er óhætt að segja að efasemdir Ketils fyrir fjórum árum hafi verið réttmætar. Síðan þá hefur United Silicon verið úrskurðað gjaldþrota og verksmiðjan í Helguvík stendur auð og yfirgefin. Framleiðsla í Kísilveri PCC á Bakka er hafin en félagið hefur glímt við mikinn rekstrarvanda frá því að starfsemin hófst. Lífeyrissjóðirnir hafa lýst því yfir að þeir muni ekki koma að frekari fjármögnun verkefnisins en i gær tilkynnti stærsti hluthafi félagsins, þýska fyrirtækið PCC SE, að það hygðist leggja fimm milljarða króna til að tryggja áframhaldandi rekstur. 

Hætt hefur verið við uppbyggingu hinna tveggja kísilveranna.    

Spurður um hvort eitthvað sérstakt hafi vakið upp efasemdir hjá honum um ágæti kísilverkefnanna á sínum tíma, segir Ketill í samtali við Viðskiptablaðið að forsendur og útreikningarnir hafi einfaldlega ekki gengið upp. 

„Þetta blasti nú eiginlega bara við. Ég hafði hvorki meiri né betri upplýsingar en aðrir á þessum tíma og nálgaðist verkefnið sem áhugamaður, en ekki sem fjárfestir eða ráðgjafi. Ég man að ég sá fjárfestakynningu vegna verkefnisins og þá fóru fljótlega að renna á mig tvær grímur. Sér í lagi þótti mér glæra sem sýndi áætlaða verðþróun á kísli einhver ár fram í tímann vera vafasöm. Þar var dregin upp ákaflega rósrauð mynd af framtíðinni um verðþróun á afurðunum. Svo kom auðvitað á daginn að þróunin varð alls ekki sú sem sett var fram í kynningunni,” segir Ketill.