Þann 4. apríl síðastliðinn lokaði Birta lífeyrissjóður tímabundið fyrir umsóknir um endurfjármögnun lána. Á vef sjóðsins segir að ákvörðunin hafi verið tekin vegna álags sem fylgir greiðsluerfiðleikaúrræðum ríkisstjórnarinnar vegna Covid.

Vextir óverðtryggðra sjóðfélagalána Birtu lækkuðu þann 1. júní og standa nú í 2,10% sem er um 1,4 prósentustigum lægri en næst-hagstæðustu lánin í sama flokki sem fást hjá Landsbankanum, samkvæmt vef Aurbjargar .

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, segir að erfitt hafi verið að veita fulla þjónustu þegar allir ferlar voru breyttir og starfsfólk að vinna að heiman. Einnig hafa verið tafir hjá öðrum í ferlinu líkt og hjá sýslumanni.

„Við gerðum hlé á endurfjármögnun til að tryggja að við getum veitt þjónustu til þeirra sem eru að taka lán og kaupa sér fasteign. Við erum ekki að gera hlé á endurfjármögnun vegna þess að vextir eru að lækka,“ segir Ólafur.

„Það stendur ekki til neins annars en að opna fyrir allt aftur en að gera það í þeim skrefum sem við teljum þjóna hagsmunum sjóðsins best. Í þessu felast engin skilaboð og þetta er algjörlega ótengt vöxtunum.“

Breytilegir vextir taka mið af stýrivöxtum

Breytilegir vextir óverðtryggðra lána hjá Birtu hafa ákvarðast síðustu þrjú árin þannig að 1,1% álag er lagt ofan á stýrivexti Seðlabankans. Ólafur segir að viðmiðið sé alltaf til endurskoðunar en að sjóðurinn ætli ekki að gera neina skyndibreytingu.

Hann bendir á að umræddir vextir eru breytilegir og breytast því í hvert skipti sem Seðlabankinn breytir vöxtum. Sjóðnum er einnig heimilt að gera breytingar á viðmiðinu.

Ólafur segir að sjóðurinn vilji hafa fyrirsjáanlega vexti fyrir sjóðfélaga og bjóða upp á lánaform sem hentar hverjum og einum í stað þess að vera með forsjárhyggju. Hann segir einnig að sjóðfélagalán séu ekki stór hluti af eignasafni sjóðsins, sérstaklega ekki óverðtryggði hlutinn.

Um gagnrýni Más Wolfgangs Mixa

Már Wolfgang Mixa fjármálafræðingur sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í lok apríl að það væru bæði kostir og gallar við að festa útlánavexti við stýrivexti líkt og Birta lífeyrissjóður gerir. Hann bendir á að stýrivextir eru skammtímavextir, á meðan fasteignalán séu langtímaskuldbindingar. „Þú finnur ekki mikið styttra viðmið.“

Ókosturinn fyrir sjóðinn sé að með þessu sé gert ráð fyrir óbreyttri lögun vaxtarófsins eða óbreyttu sambandi skammtíma- og langtímavaxta. „Ég myndi ekki vilja hafa lífeyrinn minn þarna, að því leyti að aðrir sjóðfélagar eru að fá hagstæðari lán en þeim ætti raunverulega að bjóðast í þessu vaxtaumhverfi“ sagði Már.

Ólafur segir að þegar viðmiðið var upphaflega ákveðið var litið til vaxtaferils Ríkisbréfa en talið var að sá markaður væri ekki mjög skilvirkur meðal annars vegna erlends fjármagns sem lokað var inni vegna fjármagnshafta.

„Við óttuðumst að verðlagning á RB flokkunum gæti verið að einhverju leyti erfitt að skilja. Við höfðum áhyggjur af því að sá grunnur myndi sveiflast mikið en það sem skiptir mestu máli er að vaxtagrunnurinn sé skiljanlegur og skilvirkur. Hinn almenni sjóðfélagi þarf að geta skilið viðmiðið,“ segir Ólafur.

Ársfundur Birtu lífeyrissjóðs verður haldinn næsta mánudag, 15. júní, klukkan 17 á Grand Hóteli Reykjavík.