Yves-Thibault de Silguy, einn af hugmyndasmiðum evrunnar, sagðist á morgunfundi Fransk-íslenska viðskiptaráðsins í dag ekki sjá fram á endalok evrunnar. Það sama sagði hann eiga við um mögulegt brotthvarf Grikkja úr evrusamstarfinu sem hann sagðist ekki hafa trú á að yrði raunin.

„Fari Grikkland úr evrusamstarfinu mun það marka endalok hugmyndarinnar um hinn sameiginlega markað,“ sagði Silguy. Hann bætti við að það væru sameiginlegir hagsmunir Evrópu allrar að halda sambandinu heilu.

Silguy sagði mikilvægt að hætta að einblína á evruna sem sökudólg kreppunnar. Nú væri ekki evru-kreppa heldur einfaldlega kreppa í Evrópu. Hvort Evrópa gæti endurreist efnahaginn eftir þessa kreppu væri í höndum yfirvalda sem hann sagði þegar hafa tekið mörg mikilvæg skref.

Að mati Silguy felst lausnin í fjórum skrefum. Í fyrsta lagi sagði hann mikilvægt að endurskoða stjórnskipulag ESB, meðal annars með það í huga hve mikið evran hefur stækkað sem gjaldmiðill. Evrunni þyrfti að stýra af skynsemi. Í öðru lagi sagði Silguy forgangsatriði að minnka skuldir aðildarlanda. Að lokum benti hann á að of mikill munur væri á samkeppnishæfni hinna ólíku Evrópulanda og bætti við að sameiginlegt evrópskt bankakerfi væri sameiginlegt hagsmunamál allra aðildarlanda.