ReMake Electric var á dögunum valið sem besta fjárfestingartækifæri í Evrópu og í orkugeiranum. Stjórnendur fyrirtækisins tóku við verðlaununum Frost&Sullivan í London þann 29.september síðastliðinn. Hilmir Ingi Jónsson, framkvæmdastjóri ReMake Electric, segir þetta vera mikinn heiður fyrir fyrirtækið og fjárfesta þess.

ReMake Electric hefur þróað búnað sem bætir upplýsingargildi við hefðbundinn raföryggisbúnað og býður einnig upp á upplýsingagjöf til eftirlits og vöktunar á raforku í byggingum. Með þessum búnaði geta fyrirtæki sparað allt að 40% raforku en sparnaðurinn er að meðaltali 20%. Einnig geta fyrirtæki forðast skemmdir sem verða vegna of mikils álags.

Reynsluboltar í stjórninni

Greining Frost&Sullivan byggir á ítarlegri gagnaöflun og skoðun á ReMake Electric í tvo mánuði. Hilmir segir forsvarsmenn Frost&Sullivan hafa verið sérstaklega hrifna af því hvernig fyrirtækinu er að hluta stýrt af fjárfestum, þ.e. reynsluboltum í fjárfestingum. Slíkt tíðkast ekki í sama mæli utan landsteina og hér.

Af sex stjórnarmönnum ReMake Electric eru fjórir úr hópi fjárfesta. Stjórnarformaðurinn Þórður Magnússon og stjórnarmaðurinn Örn Valdimarsson sitja þar báðir fyrir hönd Eyris Invest, einn stjórnarmaður situr þar í nafni Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Fjórði stjórnarmaðurinn úr röðum fjárfesta bættist snemma í hluthafahópinn.