Egill Sigurðsson, oddviti sveitarfélagsins Ásahrepps, segir óumdeilanlegt að Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi sveitarstjóri hreppsins, hafi dregið sér fé. Þetta kemur fram á mbl.is .

Hann segir að um fimmtán færslur sé að ræða í heildina. Þar með talin sé færsla upp á 250 þúsund krónur sem Björgvin hafi sjálfur merkt sem fyrirframgreiðslu launa.

„Sá lykill var ekki til hjá sveitarfélaginu en hann færir þetta undir fyrirframgreiðslu launa ... sú greiðsla fór ekki gegnum gjaldkera sveitarfélagsins sem hefur borgað reikningana, heldur gerði hann þetta sjálfur og sá alveg um það og fékk enga heimild til að gera það,“ segir Egill.

Um myndavél sem Björgvin nefndi sjálfur í yfirlýsingu sinni segir Egill að betra hefði verið ef myndavélin hefði fundist. „Hún hefur aldrei komið inn á borð sveitarfélagsins. Ég er með fylgiskjöl yfir þetta allt saman og öll þessi gögn. Hann er þarna að reyna að gera lítið úr því að hafa misfarið með fé. Þetta er óumdeilanlega fjárdráttur, hann er að ráðstafa þarna almannafé í eigin þágu.“