Þótt ríkisstjórnin hafi farið blandaða leiða leið tekjuöflunar og niðurskurðar þá hefur hún gleymt mikilvægi verðmætasköpunar. Hún getur aflað meiri tekna með því að einfalda skattkerfið og lækkað skatta á fyrirtæki, að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins. Hann var málshefjandi í sérstakri umræðu á Alþingi í dag um skattaumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Skýr skipting var á milli stjórnarliða og stjórnarandstæðinga í umræðunum. Stjórnarandstæðingar lögðu áherslu á mikilvægi þess að lækka skatta á fyrirtæki en stjórnarliðar, þar á meðal Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, sem var til andsvara í umræðunum, lögðu áherslu á upptöku annars gjaldmiðils í stað krónu. Hún kom jafnframt inn á kosti skattaívilnana til ýmis konar rekstrar, svo sem kvikmyndagerðar.

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði m.a. litlum og meðalstórum fyrirtækjum koma það best að fá nýjan gjaldmiðil í stað krónunnar til að jafna sveiflur í rekstri þeirra. Á móti sagði Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, að aðeins fimm OECD-ríki væru með lægra skatthlutfall en hér. Verði skattar á fyrirtæki lækkaðir hér fari hlutfallið undir því sem þar er sagði Björn Valur.

Ívilnanir skila góðum árangri

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði hlálegt að hlusta á Katrínu, lítil og meðalstór fyrirtæki skorti pólitískan stöðugleika. Því sé ekki að skipta hér.

Sigmundur sagði skattaívilnanir ýmis konar, s.s. til kvikmyndagerðar, hafa skilað góðum árangri en velti því jafnframt upp hvort ekki væri hægt að láta þær ná til fleiri fyrirtækja og fleiri tegundar rekstrar:

„Ég er sammála ráðherra um mikilvægi styrkja til kvikmyndagerðar. Þeir eru í samræmi við það sem Framsóknarmenn hafa innleitt. Það þarf aðeins að viðhalda því sem Framsóknarflokkurinn kom á,“ sagði Sigmundur og vitnaði til árangurs flokksins í efnahags- og skattamálum þegar hann átti ráðherra í ríkisstjórn.