Geirlaug Þorvaldsdóttir, hefur verið nátengd Hótel Holti, í ríflega hálfa öld. Foreldrar hennar, Þorvaldur Guðmundsson, kenndur við Síld og fisk og Ingibjörg Guðmundsdóttir, opnuðu hótelið árið 1965 og Geirlaug starfaði þar sjálf í upphafi. Hún hefur átt hótelið ein síðastliðin fimmtán ár og segir Hótel Holt eigi fáa sína líka og raun vera perlu í Reykjavík.

„Það er ekki ofsögum sagt að segja að þetta hótel er einstakt á landsvísu og ég vil bæti því við að það sé líka einstakt á heimsvísu. Það eru fá hótel í heiminum með listina í jafn stóru hlutverki. Hugsunin á bak við þetta hótel var að sameina hótel og listasafn og um leið og það var opnað var hægt að prýða veggi allra herbergja með myndlist,“ segir Geirlaug.

Sjá einnig: „Hjarta mitt er hér“

Listaverkin á hótelinu koma úr listaverkasafni foreldra hennar.  „Þorvaldur var safnarinn en foreldrar mínir báðir voru listrænir og það má segja að móðir mín hafi hvatt en ekki latt. Þau voru stórtæk á því sviði en leyfðu öðrum líka að njóta,“ segir hún. „Það má segja að kjarninn í safninu séu verk eftir frumherja íslenskrar myndlistar á síðustu öld. Þar með talið Kjarval, Jón Stefánsson, Ásgrím Jónsson og auðvitað marga aðra. Það má segja að Kjarval sé í ákveðnu öndvegi í safninu,“ segir Geirlaug.

Hún segir myndina Dyrfjöll eftir Kjarval, sem er í veitingasalnum á Holtinu, hafa vakið sérstaka athygli gesta í gegnum árin. „Hún er stórkostleg. Hann málaði þessi fjöll mörgum sinnum og í mörgum litum.  Það var einn gestur sem vildi endilega kaupa þetta verk og bað mig ítrekað um að selja sér málverkið,“ segir hún. „Það kom ekki til greina,“ segir Geirlaug ákveðin.

Haldnar eru listagöngur um Holtið þar sem sagt er frá listaverkum safnsins. „Þeir sem koma í mat geta fengið listkynningu ef þeir vilja. Ég er ekki listfræðingur en ég kann margar sögur í kringum verkin og þekki bakgrunn þeirra,“ segir Geirlaug. Hún sér oft um göngurnar sjálf en einnig koma aðrir starfsmenn hótelsins að þessu. „Eins oft og fólk biður um.“

Sjá einnig: Hafnar öllum tilboðum í Holtið

Geirlaug segir að sér hafi ekki dottið í hug að bæta við nýjum listaverkum út fyrir safn foreldra hennar. „Þetta er þeirra safn og þess vegna held ég öllu eins og það var. Það er engin ástæða til þess að breyta. Ég lét meira að segja friða fyrstu hæðina þegar ég tók við, m.a. til þess að tryggja upprunalegt útlit hótelsins eins og hægt er. Svo má hafa í huga að fallegt umhverfi er nauðsynlegt og eitthvað sem fólk sækir í, ásamt gæði í þjónustunni og matreiðslunni.“

Nánar er rætt við Geirlaugu um málið í Áramótum , tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .