Katar er langríkasta þjóð heims ef horft er til vergrar landsframleiðslu per einstakling. Þá er Lúxemborg næst ríkasta þjóð heims en nokkuð á eftir kemur Singapúr í þriðja sæti og loks Noregur í fjórða sæti.

Þetta kemur fram í samantekt bandaríska fjármálatímaritsins Forbes. Auðæfi furstadæmisins Katar liggja fyrst og fremst í olíu og gasi það að ríkið sé í efsta sæti þarf varla að koma á óvart þó svo að ríkið hafi lent í miklum greiðsluerfiðleikum árið 2009. Qatar er þekkt fyrir mikla innri uppbyggingu (e. Infrastructure) í kringu olíu- og gasiðnaðinn. Þá mun Qatar hýsa HM í knattspyrnu árið 2022. Í Qatar búa um 1,7 milljónir manna.

Þá er Lúxemborg sem fyrr segir næst ríkasta þjóð heims en þar búa um 500 þúsund manns. Lúxemborg, líkt og Sviss, er þekkt fyrir bankaleynd sína sem hefur laðað að mikið fjármagn.

Í samtali við Forbes bendir Gian Luca Clementi, prófessor í hagfræði við Leonard N. Stern School of Business í New York, þó á að þrátt fyrir að verg landsframleiðsla (GDP) sé besta leiðin til þess að mæla auðæfi þjóða segi hún lítið til um skiptingu auðæfanna. Þannig tekur hann fram að stærstu hluti íbúa í Katar sé í raun fátækur.

Hér má sjá listann yfir 15 ríkustu þjóðir heims skv. samantekt Forbes. Talan í sviga er verg landsframleiðsla per einstakling í Bandaríkjadölum.

  1. Katar (88.222)
  2. Lúxemborg (81.466)
  3. Singapúr (56.694)
  4. Noregur (51.959)
  5. Brúnei (48.333)
  6. Arabísku furstadæmin (47.439)
  7. Bandaríkin (46.860)
  8. Hong Kong (45.944)
  9. Sviss (41.950)
  10. Holland (40.973)
  11. Ástralía (39.764)
  12. Austurríki (39.761)
  13. Írland (39.492)
  14. Kanada (39.171)
  15. Kúveit (38.775)