Ný skýrsla frá greiningarfyrirtækinu Verisk Maplecroft varpar ljósi á það hvar í heiminum má finna mesta spillingu.

Verisk skilgreinir spillingu sem „að beita áhrifum sínum, með peningum eða greiðum, til að tryggja sér þjónustu“. Fyrirtækið rannsakaði hagkerfi 198 landa frá ágúst 2012 til 2014 og notaði meðal annars skýrslur frá Transparency International og Freedom House. Kom þar í ljós að lönd í Afríku og Mið-Austurlöndum búa við mesta spillingu.

Hægt er að lesa meira um mæliaðferðir Verisk á spillingu með því að smella hér , en fyrirtækið setti upp skala frá 10 til 0 þar sem 10 er minnst spilling og 0 er mest spilling. Þess má geta að Danmörk var minnst spillta ríki heims samkvæmt rannsókninni.

Hér er topp 10 listi yfir spilltustu lönd heims, sem telur að vísu 12 lönd vegna nokkurra jafntefla.

10. sæti: Suður Súdan (0,15/10)

Í nýrri kvikmynd frá Al Jazeera um Suður Súdan kemur fram hvernig þessi yngsta þjóð heims (stofnuð árið 2011) leystist upp í borgarastyrjöld. Þrátt fyrir gríðarlegar olíuauðlindir búa flestir íbúar ríkisins við sára fátækt og er það að miklu leiti vegna spillingar. Tugir þúsunda hafa látist í borgarastyrjöldinni og meira en tvær milljónir manna misst heimili sitt.

10. sæti: Rússland (0,15/10)

Þrátt fyrir að vera Evrópuríki og eitt stærsta ríki heims er margt sem er óeðlilegt í Rússlandi. Meðal annars má nefna að andstæðingar forsetans Vladimir Putin eru ítrekað fangelsaðir eða jafnvel myrtir, Rússar tryggðu sér HM 2018 að öllum líkindum með aðstoð mútugreiðslna, og vinir stjórnmálamanna fengu réttindin til að byggja upp Vetrarólympíuleikana í Sochi 2014.

10. sæti: Mjanmar/Búrma (0,15/10)

Samkvæmt frétt BBC er hagkerfið í Búrma eitt það vanþróaðasta í öllum heimi og hefur samfélagið mátt gjalda fyrir áratugi af stöðnun, spillingu ig einangrun. Stærstu stofnanir landsins hafa lengi verið undir stjórn hersins og spilling er áberandi.

6. sæti: Líbýa (0,13/10)

Samkvæmt frétt frá Financial Times í apríl hafa forráðamenn gríðarlegra olíulinda Líbýu verið sakaðir um gríðarlegan fjárdrátt og almennt vonda fjármálastjórnun. 90 prósent af þjóðartekjum Líbýu kemur frá olíuframleiðslu og er skaði íbúa því mikill. Þar aða uki eru stjórnmálamenn oft þvingaðir til að ráða ákveðna einstaklinga í mikilvægar stöður.

6. sæti: Írak (0,13/10)

Samkvæmt nafnlausum heimildarmanni Al Monitor, sem starfar sem verkfræðingur í Írak, hefur spilling þar aukist gríðarlega eftir að stríðsrekstri Bandaríkjanna þar í landi rauk. Ekki einungis sé um spillingu að ræða þegar kemur að fjármunum, heldur einnig í tengslum við stjórnsýslu og jafnvel framkvæmd laganna. Meðal annars hafa fyrirtæki verið að stinga peningum í vasann sem eiga að fara í að endurbyggja skóla þar í landi.

6. sæti: Miðbaugs-Gínea (0,13/10)

Samkvæmt skýrslu Human Rights Wath um Miðbaugs-Gíneu hefur spilling, fátækt og kúgun ráðið ríkjum þar í landi undir stjórnartíð forsetans Teodoro Obiang Nguema Mbasongo. Hann hefur verið við völd frá árinu 1979 í þessu smáa Afríkuríki. Kemur fram að gríðarlegar olíulindir þjóðarinnar fari í að fjármagna ríkmannlegan lífstíl fámenns hóps tengdum forsetanum á meðan stór hluti þjóðarinnar lifi við fátækt. Þá er réttarkerfi landsins í molum og fólk oft dæmt í fangelsi án dóms og laga.

6. sæti: Afganistan (0,13/10)

Fyrr á þessu ári greindi Fiscal Times frá því að Afganistan gæti ekki fylgt fjárhagsáætlunum sínum fyrir árið 2016 vegna hruns í tekjum ríkisins. Ástæðan var sú að helmingnum af tolltekjum ríkisins var stolið. Þá kom fram að Afganistan er eitt af þeim löndum sem innheimtir hvað lægst hlutfall skatt- og tolltekna í heiminum.

4. sæti: Súdan (0,12/10)

Eitt augljósasta dæmið um gríðarlega spillingu í Súdan er sú staðreynd að forsetinn Omar al-Bashir flúði til Suður Afríku rétt áður en hægt var að handtaka hann fyrir þjóðarmorð.

4. sæti: Mið-Afríkulýðveldið (0,12/10)

Ítarleg grein BBC um Mið-Afríkulýðveldið í febrúar greindi frá því að spilling í landinu væri gríðarleg með tilheyrandi tjóni fyrir íbúa landsins. Timbur- og demantaiðnaðurinn í Mið-Afríkulýðveldinu skila gríðarlegum hagnaði en hann rennur að mestu leiti til örfárra aðila. BBC bætti því við að landið væri eitt það vanþróaðasta í heimi.

1. sæti: Sómalía (0/10)

Árið 2013 sendu Sameinuðu Þjóðirnar frá sér harðorða skýrslu um spillingu í Sómalíu, sem nánast er stjórnlaust land. Í einum kafla kemur meðal annars fram að Seðlabankinn í Sómalíu sé einfaldlega sparibaukur fyrir vel valda aðila og að 80 prósent peninga sem teknir eru úr Seðlabankanum fari í eyðslu einkaaðila í stað þess að stýra verkefnum á vegum ríkisins. Þá er stór hluti þeirra peninga sem lagðir eru inn í bankann órekjanlegur með öllu.

1. sæti: Lýðræðislega lýðveldið Kongó (0/10)

Samkvæmt skýrslu frá Transparency International árið 2014 er spilling svo rótgróin í Lýðræðislega lýðveldinu Kongó (ruglist ekki saman við Lýðveldið Kongó) að það er enginn hvati til að reyna að draga úr henni. Forsetinn Joseph Kabila hefur lofað því margoft að reyna að draga úr spillingu, en pólitískur vilji virðist ekki vera til staðar.

1. sæti: Norður Kórea (0/10)

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að Norður Kórea sé eitt spilltasta land í heimi og skýrsla frá Economic Index of Freedom árið 2015 segir okkur af hverju. Meðal annars eru mútur sjálfsagður hlutur á öllum stigum samfélagsins. Stjórnvöld eiga svo gott sem öll fyrirtæki og allar eignir og þeir sem eru hliðhollir leiðtoganum Kim Jong Un uppskera eftir því. Þá stýra stjórnvöld öllum inn- og útflutningi sem og allri framleiðslu.