Sérstakur saksóknari hefur gefið út ákærur á hendur fimmtán einstaklingum sem tengjast meintri markaðsmisnotkun með hlutabréf Landsbankans og Kaupþings upp á tugi milljarða króna í aðdraganda hrunsins haustið 2008. Auk bankastjóra bankanna eru ákærðir forstöðumenn eigin viðskipta beggja banka á sínum tíma. Markaðsmisnotkunin laut að því í báðum tilvikum að halda gengi hlutabréfa bankanna uppi þegar halla tók undan á mörkuðum. Níu fyrrverandi starfsmenn Kaupþings eru ákærðir en sex sem unnu hjá gamla Landsbankanum.

Þessir eru ákærðir í Kaupþings-málinu

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru ákærðir úr Kaupþingi þeir Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri Kaupþings, Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings á Íslandi, Magnús Guðmundsson, bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, Bjarki Diego, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Kaupþings, Björk Þórarinsdóttir, sem vann á fyrirtækjasviði Kaupþings, Einar Pálmi Sigmundsson, forstöðumaður eigin viðskipta, Birnir Sær Björnsson, eigin viðskipt, og Pétur Kristinn Guðmarsson, eigin viðskipti.

Þessir eru ákærðir í Landsbanka-hlutanum

Samkvæmt heimildum RÚV eru eftirfarandi starfsmenn gamla Landsbankans ákærðir. Það eru þau Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri, Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans, Ívar Guðjónsson,  forstöðumaður eigin viðskipta, Steinþór Gunnarsson forstöðumaður verðbréfamiðlunar Landsbankans, Júlíus Steinar Heiðarsson miðlari og Sindri Sveinsson miðlari.