Uppsagnir 137 starfsmanna þriggja fyrirtækja í fjármálageiranum í síðustu viku bætist ofan á töluverðrar fjölgunar atvinnulausra úr viðskipta- og hagfræðigreinum síðustu ár að því er greina má úr tölum Vinnumálastofnunar. Þannig hafði fjöldi þeirra sem skráðir voru atvinnulausir úr þessum greinum nálega tvöfaldast frá því í janúar 2016 til ágústmánaðar 2019, eða úr 248 í 469, sem er nærri 90% aukning.

Ef horft er aðeins skemur, eða um tvö ár aftur í tímann er aukningin enn meiri, en atvinnuleysi í þessum greinum atvinnulífsins var akkúrat í lágpunkti í júlí 2016 þegar 188 voru atvinnulausir. Aukningin síðan þá nemur nærri 150%, en á sama tíma má sjá að langtímaatvinnuleysi meðal þessara hópa, sem skilgreint er sem atvinnuleysi í ár eða lengur, er minna en almennt gerist.

Tilkynningin á fimmtudaginn um uppsagnir starfsfólksins, fyrst hjá Arion banka, en síðar sama morgun hjá bæði Íslandsbanka og Valitor komu morguninn eftir að Icelandair tilkynnti um uppsagnir 87 flugmanna og frestun launahækkana, svo í heildina bárust fréttir af 224 sem misstu vinnuna á innan við sólarhring. Þó verður að halda til haga að ákveðinn hluti þeirra sem eru inn í þessum tölum var fólk sem er að fara á eftirlaun og samið hafði verið um það í sumum tilfellum síðustu mánuði á undan, auk þess sem Icelandair gaf fyrirheit um endurráðningar með vorinu.

Katrín Ólafsdóttir , doktor í vinnumarkaðshagfræði og lektor við HR, segir að undanfarna daga og vikur hafi ekki verið útlit fyrir mikla dýfu í íslensku efnahagslífi en jafnframt að þótt búast hefði mátt við að hagræðing héldi áfram í fjármálageiranum hefði hún gerst hraðar en hún bjóst við. „Þetta er stórt högg svo það bætir kannski aðeins í svartsýnina, en í raun og veru kemur ekki á óvart að bankarnir fækki starfsfólki, heldur aðallega að þetta gerist allt í einu, sem tengist örugglega nýjum yfirmönnum í Arion banka,“ segir Katrín. Hún er jafnframt í peningastefnunefnd Seðlabankans sem lækkaði vexti í gærmorgun um 25 punkta.

„Þetta bendir til þess að niðursveiflan gæti orðið aðeins dýpri en við áttum von á, þetta vekur að minnsta kosti ekki bjartsýni heldur hallar frekar í svartsýnisáttina. Ég ætla þó ekki að segja hvort þetta þýði eitthvað frekar að það komi frekari vaxtalækkun, en alla vega þýðir þetta ekki vaxtahækkun, ég myndi fara þeim megin. Þetta er einmitt merki um að það hægist á í hagkerfinu sem kemur ofan á niðurstöður könnunar sem gerð var fyrir Landsbankann á dögunum um að fyrirtæki hafi sagt upp fólki frekar vegna kjarasamninga heldur en fækkunar ferðamanna vegna Wow, sem er áhyggjuefni líka.“

Sverrir Briem , einn eigenda og ráðgjafi hjá ráðningarskrifstofunni Hagvangi, segir að heilt yfir sé staðan á vinnumarkaðnum fín.

„Hann var rólegur framan af ári, þá út af kjarasamningunum, stöðunni á og loks falli Wow air og svo kom sumarið. Síðan kom kippur núna í haust þegar fólk kom aftur úr sumarfríum og fór að sjá í tölum að ástandið var ekki jafnslæmt og margir héldu, svo við erum bjartsýn,“ segir Sverrir sem hefur trú á að ekki eigi eftir að vera mikið vandamál að finna störf fyrir þá sem misstu vinnuna í uppsagnarhrinu síðustu viku.

„Íslenski vinnumarkaðurinn er sveigjanlegur og fólk á auðveldara með að skipta um atvinnugeira en víða annars staðar og getur gengið í öll störf. Þetta fólk sem er uppalið í bönkunum er á mjög háu stigi, svo núna lekur þetta fólk með sína flottu þekkingu bara út í aðra geira og önnur störf í atvinnulífinu. Það hefur verið erfiðast fyrir okkur, og á við í allri Evrópu, að finna fólk í störf í alls kyns framleiðslu, en síðan er alltaf eftirsótt að finna fólk í tæknigeirann. Það er erfitt að missa vinnuna en síðan er málið að vera bara brött, vanda öll umsóknargögn og ferilskrána og nota auðvitað bæði ráðningarskrifstofur og eigin tengslanet. Þetta fólk fer í nýja vinnu.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .