Harald Aspelund er einn þriggja sem sitja í nefnd sem falið er að velja næsta framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar (WTO). Hann hefur starfað í utanríkisþjónustunni í þrjá áratugi og er með bakgrunn í viðskiptafræði.

„Nú í sumar hef ég starfað hjá utanríkisþjónustunni þrjátíu ár. Ég er með bakgrunn í viðskiptafræði en ég er Cand.oecon. frá Háskóla Íslands. Lokaritgerðin mín fjallaði um tolla á íslenska sjávarútveginn til Efnahagsbandalags Evrópu sem þá var," segir Harald og bætir við að hann hafi farið á skrifstofu utanríkisráðuneytisins til að afla gagna. Eftir námið lá leiðin í Búnaðarbankann og í löggildingu til verðbréfamiðlara. „Ég starfaði þar í næstum ár en þegar til stóð að stofna verðbréfadeild Búnaðarbankans hafði utanríkisráðuneytið samband við mig og bauð mér að taka þátt í viðræðum um Evrópska efnahagssvæðið, þau þurftu á einhverjum að halda sem gæti reiknað alla þessa tolla," segir hann. Harald ákvað að slá til og kveðst aldrei hafa séð eftir því. „Þetta er búið að vera mikið ævintýri og sérstaklega gaman að því að koma svo ungur að útreikningum á EES-samningum, það var einstakt tækifæri. Ég er bara svo þakklátur fyrir að fá að vinna fyrir Ísland í svo skemmtilegu starfi."

Afar tæknilegt ferli

Harald segir spurður hvernig það hafi æxlast að hann sitji í nefnd sem hafi hlutverk að velja nýjan framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar að það hlutverk hafi borið nokkuð óvænt upp. „Það er þannig að þrjár aðalnefndir eru í Alþjóðaviðskiptamálastofnuninni. Það kemur síðan í hlut formanna þessara nefnda að velja næsta framkvæmdastjóra og ég er einn þessara þriggja formanna. Þetta í raun datt bara í fangið á mér."

Ferlið við valið á nýjum framkvæmdastjóra WTO er afar tæknilegt segir Harald. „Þegar ég frétti fyrst af því að mér hafði verið falið þetta verkefni fannst mér það mjög spennandi og þetta gefur Íslandi náttúrulega mikinn sýnileika. En skiljanlega hafði ég dálitlar áhyggjur af því að valið yrði strembið. Mér varð því mjög létt þegar ég sá svo hvernig þetta gengur fyrir sig." Hann segir að ferlið gangi allt út á stigagjöf og viðtöl við sendiherra aðildarríkjanna. „Það er í raun ekkert pláss fyrir okkar persónulegu skoðanir í þessu ferli," bætir hann við.

Nánar er rætt við Harald í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .