Viðskiptafræðingurinn Sólmundur Hólm, einnig nefndur Sóli, er einn af vinsælustu veislu- og skemmtanastjórum landsins um þessar mundir. Hann segir að örlögin hafi ráðið því að hann endaði í skemmtanabransanum, enda sjái þau gjarnan til þess að maður lendi á réttum stað. Hann segir Gylfa Ægisson þó einnig eiga sinn þátt í því að ferill hans fór á flug og lofsamar endurskoðendur og verkfræðinga enda séu þeir hans bestu áhorfendur.

Hvernig kom það til að þú leiddist út í „skemmtanabransann“?

„Hér varð svokallað hrun. Ég átti eina önn eftir af viðskiptafræðinni þegar allt hrundi og eftir það var ekki slegist um mína krafta í þeim geira, þannig að hægt og bítandi leiddist ég óvart út í þetta. Ég fór í viðskiptafræði til að vera ekki í þessum bransa, til að geta verið ríkur og enginn vissi hver ég væri. En svo fattaði ég bara að ég hef áhuga á þessu, þetta er það sem mér finnst skemmtilegt og neyðin neyddi mig út í það. Þetta var bara minn björgunarhringur en held að það séu bara alltaf örlögin sem sjá til þess að maður endar þar sem maður á að vera.“

Sögulega versta giggið

Manstu eftir fyrsta „gigginu“ þínu ?

„Ég man þegar ég fékk fyrst borgað, en það var á einhverri unglingasamkomu hjá hestamönnum á Þingvöllum. Ég hafði aldrei áður rukkað fyrir framkomu og þegar sá sem hringdi og bókaði mig spurði hvað ég tæki fyrir þetta, ég sagði bara 5.000 kall. Hann sagði bara: „Nei! Þú færð allavegana 15.000 kall“.

Ég tók eitt af mínum sögulega verstu giggum vorið 2005, þ.e. áður en ég byrjaði í viðskiptafræðinni. Þá var ég einmitt að skemmta hestamönnum líka, ég á reyndar mjög gott samband við þá þrátt fyrir þetta, en uppistandið var á einhverri hestasýningu í Reiðhöllinni og ég átti að skemmta í hléi. Það vildi hins vegar þannig til að 70% fólksins fóru í sjoppuna í hléinu og þessi 30% sem voru inni fóru að tala saman.

Alls staðar þar sem ég hafði skemmt fram að þessu hafði bara gengið ógeðslega vel, ég sló alltaf í gegn, en þarna var enginn að hlusta þannig að ég ákvað að það væri bestað þakka bara fyrir mig eftir 1-2 lög. Þegar ég er svo kominn niður af sviðinu þá kemur einhver maður til mín og segir að skeiðklukkan sé biluð og að ég verði að fara aftur inn. Ég fer því gersamlega niðurbrotinn aftur á sviðið og það með kúrekahatt á höfðinu og í kúrekastígvélum – ég var íbúningi! Það er eitt að vera niðurlægður en það er hræðilegt að vera niðurlægður í búningi! Í dag nota vinir mínir þennan atburð sem mælikvarða fyrir eittvað sem er lélegt og segja gjarnan: „þetta var alger reiðhöll“.

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Fundir & ráðstefnur sem fylgir nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.