*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 3. október 2021 16:39

„Þetta var lottóvinningur"

Krist­rún hefur hagnast um 30 milljónir eftir skatt af á­skriftar­réttindum sínum en verð­mæti úti­standandi réttinda nemur 45 milljónum.

Ritstjórn
Kristrún Frostadóttir, nýkjörinn þingmaður Samfylkingarinnar
Haraldur Guðjónsson

Kristrún Frostadóttir, nýkjörinn þingmaður Samfylkingarinnar, segist hafa keypt áskriftarréttindi að 10 þúsund hlutabréfum í Kviku banka fyrir um 3 milljónir króna árið 2018, en rétt er að geta þess að sennilega er um mismæli að ræða og hún meint 10 milljónir hluta. Kristrún segir heildarábata sinn af þeim bréfum sem hún hefur þegar leyst út vera um 30 milljónir króna, eftir skatt, og að verðmæti þess hluta sem kemur til innlausnar eftir áramót sé í dag um 45 milljónir króna, eftir skatt.

Kristrún gerði grein fyrir áskriftarréttindum sínum í Silfrinu á RÚV í dag. Þar segir hún að um mikla áhættufjárfestingu hafi verið að ræða, sem hafi reynst „fáránlega góð fjárfesting" og bætti við: „Þetta var lottóvinningur".

Þá segir Kristrún jafnframt að fyrstu fréttir hafi hálfpartinn verið stillt upp þannig að eitthvað mikið væri við þetta að athuga. Viðskiptablaðið fjallaði um áskriftarréttindakerfi Kviku banka 19. september síðastliðinn, þar sem fram kom að skattyfirvöld skoði eldra kerfi sem samþykkt var í október 2016. Þá kom fram að það kerfi sem er til skoðunar hafi verið aflagt og að núgildandi kerfi verið komið á laggirnar árið 2017.

Í fréttinni kom jafnframt fram að Kristrún hafi hafið störf í sama mánuði og fyrstu réttindi voru gefin út innan nýja áskriftarréttakerfisins og reyndi blaðamaður að ná í hana til að spyrja hvort og þá hvenær hún hefði nýtt sér sinn kauprétt og að endingu hvort greiddur hefði verið fjármagnstekjuskattur af hagnaðinum eða almennur tekjuskattur.

Hugðist ekki tjá sig um fortíðina

Kristrún svaraði ekki fyrirspurn blaðsins en tjáði sig degi síðar um málið á Twitter þar sem hún sagði meðal annars að um samantekin ráð virtist að vera hjá MBL og Viðskiptablaðinu „að gefast upp á að ræða um mína pólitík á efnislegum grunni og reyna nú bara að keyra konuna niður með smjörklípum, óhróðri, gera lítið úr jafnaðarmannaskoðunum mínum," segir í fyrsta tístinu af sautján."

Í skriflegu svari til Morgunblaðsins þann 23. september, lýsti hún því yfir að hún hygðist ekki tjá sig um sín persónulegu fjármál eða viðskipti sem hún átti áður en hún hóf afskipti af stjórnmálum og minntist þar ekki á útistandandi réttindi hverra verðmæti nema tugum milljóna miðað við núverandi gengi bréfa Kviku banka.