„Þetta verður ekkert hallærislegt. En þarna á að fara vel um menn og hesta,“ segir Ísólfur Líndal, reiðkennari, tamningamaður og hrossabóndi. Framkvæmdir eru nú hafnar á byggingu reiðhallar í landi fjölskyldu hans á Lækjamóti í Víðidal í Húnaþingi vestra. Byrjað er að taka grunn að húsinu og stefnt að því að undirbúa fyrir járnabindingu í lok mánaðar. Vonast er til að hægt verði að nota húsið í janúar á næsta ári. „Ég er kominn með magnaða menn í framkvæmdir og held að þetta sé ekki alveg út í loftið,“ segir Ísólfur í samtali við vb.is. Í húsinu að Lækjamóti verður reiðkennsla, þjálfun og hrossarækt auk tækja og tóla fyrir endurhæfingu hesta.

Þegar húsið verður fullbúið og reksturinn kominn í gang er stefnt á að erlendir ferðamenn komi í reiðkennslu hjá Ísólfi, sem fram til þessa hefur ferðast heiminn þvert og endilagt í tengslum við störf sín.

„Þetta snýst um það að verða sjálfum okkur nóg og að við getum unnið heima hjá okkur. Þetta er full vinna fyrir tvo, okkur hjónin og strákana. Ég er búinn að ferðast gríðarlega mikið vegna kennslu undanfarin ár og djöflast út um allan heim. Planið er að minnka það mikið og að útlendingar, ýmsir fastakúnnar og aðrir nýir, komi í kennslu hjá mér,“ segir Ísólfur, sem var staddur á kynbótasýningu í nágrenni Flensborgar í Þýskalandi þegar vb.is ræddi við hann.

Fékk hjálp hjá breskum auðkýfingi

Eins og fram kom á vb.is í morgun lánar breski auðkýfingurinn sir Richard George Ísólfi og fjölskyldu hans fjármagn vegna byggingarinnar. Ísólfur fjármagnar bygginguna sömuleiðis með sölu á hrossum. Um lánið segir hann: „Þetta verður ekki á neinum bankavöxtum.“

Ísólfur kynntist sir George, sem er sestur í helgan stein, í gegnum reiðkennslu á Englandi. „Hann er mikill áhugamaður um hesta og íslenska náttúru,“ segir Ísólfur um auðkýfinginn.