*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 17. júlí 2020 14:50

„Þetta verður ekki liðið!“

Drífa Snædal segir að ASÍ muni „skoða allar leiðir til að vinda ofan af þessari vitleysu“, aðspurð um framgöngu Icelandair.

Sigurður Gunnarsson
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands
Haraldur Guðjónsson

 „Þetta er fullkomin vanvirðing við leikreglur á íslenskum vinnumarkaði og ekki síst við eigið starfsfólk,“ segir Drífa Snædal, formaður Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um tilkynningu Icelandair fyrr í dag. Í tilkynningunni kom meðal annars fram að öllum flugfreyjum og flugliðum félagsins hafi verið sagt upp. 

Icelandair sagðist gera ráð fyrir „að hefja viðræður við annan samningsaðila á íslenska vinnumarkaði, um framtíðarkjör öryggis- og þjónustuliða hjá félaginu.” 

Drífa segist ekki vita hvaða stéttarfélag Icelandair muni leita til. Aðspurð hvort flugfélaginu sé leyfilegt að grípa til þessara ráða segir hún að ASÍ sé að „skoða allar leiðir til að vinda ofan af þessari vitleysu“. Hún bendir á að Flugfreyjustéttin á Íslandi sé sérstök stétt að því leyti að hún er ekki með algilda kjarasamninga á íslenskum vinnumarkaði heldur vinnustaðasamninga.  

„Ég á erfitt með að sjá að lífeyrissjóðir, eftirlaunasjóðir vinnandi fólks á Íslandi, séu að fara að leggja í hlutafjárútboð hjá félagi sem hagi sér svona. Að sjálfsögðu munum við gera kröfu um að stjórnvöld styðji ekki við fyrirtæki sem hagi sér svona gagnvart starfsfólki. Þeir eru að fara með handafli að lækka laun þessarar stéttar,“ bætir Drífa við.

Ótrúleg ósvífni. Þetta verður ekki liðið!

Posted by Drífa Snædal on Friday, 17 July 2020