Nú hafa allir stóru stjórnmálaflokkarnir lokið landsfundum sínum og því liggur stefna þeirra í aðdraganda komandi alþingiskosninga nokkuð skýrt fyrir. Flokkarnir hafa að miklu leyti sömu markmið en ólíkar aðferðir við að ná fram þeim markmiðum. Viðskiptablaðið lagðist yfir helstu línur þeirra í efnahags- og viðskiptamálum og hér er það sem flokkarnir segja um skuldamál og verðtrygginguna.

Sjálfstæðisflokkinn fjallaði nokkuð um skuldamál heimilanna á sínum landsfundi. Í stuttu máli vill flokkurinn leysa stærstan hluta þeirra með því að veita einstaklingum skattaafslátt til að standa skil af húsnæðislánum sem og að greiða inn á höfuðstól lána ella skila lyklum að húsnæði sínu án eftirmála ef ómögulegt reynist að standa skil af lánum.

Samfylkingin vill nýta vaxta- og barnabótakerfið í auknum mæli til að koma til móts við skuldsett heimili en Framsóknarflokkurinn vill sem fyrr að „stökkbreytt“ verðtryggð húsnæðislán verði leiðrétt án þess að það sé útskýrt nákvæmlega í ályktunum flokksins.

Minna fór fyrir þessu máli í ályktunum VG en þar var þó mikið rætt um verðtryggingu. Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og VG vilja afnema verðtryggingu á neytendalánum en Sjálfstæðisflokkurinn vill, eftir mikil átök á nýafstöðnum landsfundi, leggja fram áætlun til að minnka vægi hennar.

Ítarlega greiningu á málinu má skoða í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.