Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands segir að þó verkalýðsfélögin hafi slegið af helstu kröfum hafi launahækkanirnar sem samið var um í ársbyrjun verið miklu meiri en við sjáum í samkeppnislöndum okkar.

Það þýðir að samkeppnisstaða Íslands hélt áfram að rýrna, en veiking krónunnar „lagaði það að einhverju leyti“ sagði Þórarinn á morgunverðarfundi Félags atvinnurekenda um ástand og horfur í efnahagsmálum. Spurður hvort kjarasamningarnir hafi verið skynsamlegir og stuðlað að mjúkri lendingu sagði hann það fara eftir því hver viðmiðunarpunkturinn væri.

„ Ef hann er sá, eins og var í umræðunni á þessum tíma um hvernig kjarasamningar gætu orðið, þá var þetta mjög skynsamlegur kjarasamningur og leiddi til góðrar niðurstöðu, vegna þess að versta sviðsmyndin um hvernig þetta færi gekk ekki eftir,“ Þórarinn.

„Það verður hins vegar ekki komist framhjá því að þetta voru mjög ríflegar launahækkanir, miklu meiri en við sjáum í okkar samkeppnislöndum, sem þýðir að samkeppnisstaða Íslands hélt áfram að rýrna.“

Fall Wow meiri áhrif en væntar stýrivaxtahækkanir

Taldi hann að þó Seðlabankinn hafi látið það skýrt í ljós að ef samið yrði um of miklar launahækkanir yrðu vextir hækkaðir, og jafnvel þó svo hafi verið gert í nóvember síðastliðnum í aðdraganda þess sem virtist ætla að vera átakavetur í kjaramálum, hafi efnahagsáfallið vegna falls Wow líklega haft meiri áhrif til skynsamlegrar niðurstöðu.

„Ég held að það hafi að einhverju leyti breytt væntingum verkalýðshreyfingarinnar um hvað væri framundan og hvernig samningi væri hægt að ná. Það hjálpaði til við að ná niður verðbólgunni og kallaði þá á minni viðbrögð frá okkur. Það voru ekki bara kjarasamningarnir, heldur líka þessi ytri efnahagsáföll sem ég er búinn að lýsa.“

Þórarinn fjallaði einnig um áhrif af tolladeilum og viðskiptastríði Bandaríkjanna og Kína, sem Seðlabankinn metur að geti þýtt um 0,3% samdrátt í landsframleiðslu Íslands á árinum 2019 til 2021 og áhrif af Brexit sem geti þýtt 0,5% samdrátt.
Jafnframt geti þetta þýtt 1,8% samdrátt í útflutningi á þessu tímabili, en áhrifin af minni alþjóðlegri eftirspurn gæti þó að einhverju leiti þegar hafa komið fram.

Aldrei lægri vextir hér á landi en nú

Loks benti Þórarinn á að vextir hefðu aldrei verið lægri hér á landi, með 3,5% stýrivöxtum, en á sama tíma væru þeir neikvæðir víða í þróuðum iðnríkjum. Sagði hann að ef verðbólga og væntingar yrðu til friðs og með meiri samdrætti í efnahagslífinu en gert hefði verið ráð fyrir væri svigrúm til að lækka vextina enn frekar.

Vonandi væru þeir þó ekki á leiðinni undir núll enda væri það merki um alvarlegan efnahagssamdrátt, en vextirnir ættu í eðlilegu árferði í kringum 2,5% verðbólgumarkmið að vera 4,5 til 5%. Á vef FA má sjá upptöku af fundinum.