Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka Iðnaðarins, segir í grein á vef SI að  misjafnt sé hversu vel sveitarfélög standi sig við að úthluta lóðum til að draga úr lóðaskorti sem valdið hefur miklum verðhækkunum á húsnæðismarkaði. Nefnir hann þar Kópavog, Garðabæ og Mosfellsbæ sem dæmi um sveitarfélög sem standi sig vel en Reykjavík, Hafnarfjörð og Seltjarnarnes sem dæmi um sveitarfélög sem úthluti fáum lóðum.

Þá segir Ingólfur jafnframt að tafir séu að verða á uppbyggingu m.a. vegna áherslu á þéttingu byggðar sem valdi því að SI reikni með að 774 færri íbúðir verði fullgerðar á tímabilinu 2017-2020.

Ingólfur bendir ennfremur á að fjölgun íbúða nái ekki að haldast í hendur við fólksfjölgun sem birtist meðal annars í því að hlutfall íbúa á hverja íbúð færist upp á við sem sé öfugt við það sem sé að gerast í nágrannalöndunum þar sem hlutfallið sé á leiðinni niður á við. Það þýði að reikna megi með að fleira ungt fólk á aldrinum 20-29 ára búi áfram í foreldrahúsum eða um 40% fólks á þessu aldursbili.

„Ef reiknuð er út íbúðaþörf fólksfjölgunar á höfuðborgarsvæðinu með ofangreint í huga, þ.e. að þörfin sé eftir íbúðum sem eru nálægt 2 á íbúð, fæst að fjölgun íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefði þurft að vera 2.270 íbúðir á fyrstu þremur ársfjórðungum þessa árs vegna fólksfjölgunar einnar. Ef áætlað er fyrir fjölgun íbúa á síðasta ársfjórðungi ársins má segja að íbúðaþörfin hafi verið nær 2.900 í ár,“ skrifar Ingólfur en þær tölur geti verið vanmetnar því þær geri aðeins ráð fyrir fólksfjölgun en með núverandi áherslu á þéttingu byggðar geti verið að rífa þurfi byggingar sem auki þar með þörfina enn frekar.

Hann segir að áætlaður fjöldi nýbygginga í ár nemi 1.540 sem er talsvert lægra en þörfin. Þó sé það bæting frá því í fyrra þegar aðeins 1.234 íbúðir voru fullgerðar.

„Fullgerðar íbúðir í ár verða samt ekki nema rétt tveir þriðju eða ríflega helmingur af þörf eftir því hvaða forsenda er gefin um fjölda íbúa á hverja íbúð, segir Ingólfur og bætir við „Það er því ekki að ástæðulausu að íbúðaverð hafi yfir síðustu tólf mánuði hækkað um tæplega 20%.“