Tilboði lægstbjóðanda, ÞG verktaka, í þriðja áfanga byggingar skrifstofuhúss á Alþingisreit hefur verið tekið og verður gengið frá samningum á næstu dögum. Kostnaðaráætlun verksins að lokinni yfirferð Fjársýslu ríkisins er 3.340.725.282 með virðisaukaskatti.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá skrifstofu Alþingis er um að ræða uppsteypu og fullnaðarfrágang grunnhúss auk fimmtu hæðar. Samkvæmt tilkynningunni er vonast til að vinna við aðstöðusköpun, lagfæringu á girðingu, uppsetningu vinnubúða, merkingar og fleira hefjist í næstu viku og eru verklok áætluð í lok apríl 2023.

Í byggingunni sem rís á milli Kirkjustrætis, Vonarstrætis og Tjarnargötu verða skrifstofur þingmanna, funda- og vinnuaðstaða fyrir þingflokka og starfsfólk þeirra, fundaherbergi fastanefnda og vinnuaðstaða fyrir starfsfólk nefndanna. Öll þessi aðstaða er nú í leiguhúsnæði. Þá er gert ráð fyrir mötuneyti í nýbyggingunni.

Framkvæmdasýsla ríkisins hefur umsjón með byggingaframkvæmdunum en arkitektar Studio Granda hlutu fyrstu verðlaun fyrir tillögu sína í hönnunarsamkeppni sem haldin var árið 2016. Aðilar hönnunarteymis eru Studio Granda og EFLA.