Tidjane Thiam hefur verið ráðinn nýr forstjóri svissneska bankans Credit Suisse. Thiam hefur hingað til verið forstjóri breska tryggingafélagsins Prudential. Í frétt Reuters segir að markmiðið með ráðningunni sé að auka markaðshlutdeild Credit Suisse í eignastýringu í nýmarkaðslöndum.

Stjórnarformaður Credit Suisse, Urs Rohner, segir að núverandi forstjóri bankans, Brady Dougan, muni stíga til hliðar í júní og muni Thiam þá taka við. Hann hefur verið forstjóri Prudential frá árinu 2009 og á þeim tíma hefur gengi hlutabréfa fyrirtækisins hækkað um ríflega 200%.

Thiam var áður ráðherra í ríkisstjórn Fílabeinsstrandarinnar og síðar meðeigandi í ráðgjafafyrirtækinu McKinsey. Thiam varð fyrsti svarti forstjóri FTSE 100 fyrirtækis þegar hann varð forstjóri Prudential.

Credit Suisse samþykkti í fyrra að greiða bandarískum stjórnvöldum 2,5 milljarða dala sekt fyrir að hafa aðstoðað bandaríska þegna við að komast hjá skattgreiðslum og frá þeim tíma hafa verið uppi kröfur um að Dougan léti af störfum.