Glímukappinn Hulk Hogan, hvers raunverulega nafn er Terry G. Bollea, sakaði vefmiðilinn Gawker um að hafa brotið á friðhelgi einkalífs síns, og kærði miðilinn fyrir vikið. Í mars síðastliðnum féll dómurinn Hogan í vil, og Gawker var gert að greiða honum 140 milljónir Bandaríkjadala eða tæplega 17 milljarða íslenskra króna í skaðabætur.

Málið sem Bollea kærði vegna var það að Gawker skuli hafa birt á vefsíðu sinni kynlífsmyndband af Hogan - þar sem hann stundaði samfarir með eiginkonu vinar síns. Birtingin varð að hans sögn honum og hans persónu til mikillar ærumeiðingar. Þetta var langt í frá í fyrsta sinn sem Gawker, yfirlýst slúðurblað, birti efni af þessu tagi.

Greiddi lögfræðikostnað fyrir milljarð króna

Nú hefur komið í ljós , eftir talsverðar opinberar vangaveltur, að það var frumkvöðullinn, fjárfestirinn og rithöfundurinn Peter Thiel - sem er hvað helst þekktur fyrir komu sína að stofnun PayPal, auk þess sem hann skrifaði bókina ‘ Zero to One ’ - sem fjármagnaði lögsókn Bollea gegn Gawker. Thiel greiddi allt að 10 milljónir Bandaríkjadala eða 1,2 milljarða króna í lögfræðikostnað vegna málsins.

Thiel segist hafa góða og gilda ástæðu fyrir þessu - Gawker birti slúðurgrein um hann árið 2007 þar sem því var ljóstrað upp að hann væri samkynhneigður, án þess að haft hefði verið samband við Thiel eða hann einu sinni varaður við umfjölluninni - og hann telur þessa umfjöllun hafa verið brot á rétti sínum til friðhelgi einkalífs, rétt eins og brotið hafði verið á rétti Hogan til þess sama.

Miklar umræður hafa spunnist út frá málinu. Mörgum finnst vafasamt að auðmönnum sé fært að koma að fjármögnun dómsmála eins og gerðist í þessu tiltekna máli, og óttast að einskonar ólígarkíuréttarríki gæti myndast þar sem aðeins þeir efnameiri hafi möguleikann á því að sækja réttar síns fyrir dómstólum.

Mismunandi sjónarmið

Nick Denton, eigandi og stofnandi Gawker, hefur birt opið bréf til hans - þar sem hann kallar hann ‘ teiknimyndasöguillmenni ’ og ‘hefnigjarnan’. Denton skorar þá einnig á hann í opinberar kappræður um blaðamennsku, gildi hennar og hlutverk. Hann sakar Thiel um að gera atlögu að tjáningarfrelsi fjölmiðla, sem varið er með fyrstu ákvæðum stjórnarskrár Bandaríkjanna.

Að sögn Thiel er fjármögnun hans á ákæru Hogan ekki atlaga að tjáningarfrelsi fjölmiðla - síður en svo - heldur sé hún til þess fallin að verja rétt einstaklinga til friðhelgi einkalífs. Honum finnst fjölmiðlar ekki eiga að geta farið svo frjálslega með umfjöllun einstaklinga, þannig að þeir verði fyrir tilfinningalegum og efnislegum skaða.

Málinu er hvergi fjarri lokið. Enn eru fleiri ákærur á hendur Gawker hverra dómstólar eiga eftir að skera úr um niðurstöður. Thiel á svo enn eftir að svara áskorun Denton um opinberar kappræður - en ljóst er að þær yrðu litríkar ef úr þeim yrði.