Peter Thiel, einn af áhrifamestu fjárfestum í Kísildalnum, hefur fjárfest miklu í Bitcoin í gegnum fjárfestingarfélag sem hann er meðeigandi í og nefnist Founders Fund. Á vef The Wall Street Journal segir að félagið eigi hundruð milljóna dala í rafmyntinni óstöðugu og að fjárfestingunni í bitcoin hafi verið dreift á nokkra af sjóðum félagsins meðal annars einum sem hóf fjárfestingar um mitt ár 2017.

Félagið og Thiel sjálfur eru hvað þekktastir fyrir að vera einir fyrstu fjárfestar í Facebook og öðrum sprotafyrirtækjum. Fjárfestingin í bitcoin er þó að skila ávinningi öllu hraðar eins og mál standa nú en Founders Fund er sagður hafa keypt talsverðan fjölda bitcoin fyrir um 15-20 milljónir dala en virði þeirra nú er líkt og áður sagði talinn hlaupa á hundruðum milljóna dala.