Milljarðamæringurinn og fjárfestirinn Peter Thiel hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir stuðning sinn við forsetaefni Repúblikana. Hann gefur þó lítið fyrir þá gagnrýni og segir Bandaríkin þurfa á Trump að halda til þess að laga pólitísku vandamál þjóðarinnar.

Thiel segir Bandaríkin þurfa að finna lausnir á dýrum stríðsrekstri, námslánabólunni og viðvarandi viðskiptahalla þjóðarinnar. Stjórnmálaelítan hefur að hans sögn brugðist hlutverki sínu.

Thiel er einn af meðstofnendum PayPal og Palantir, en er einnig þekktur fyrir að vera fyrsti utanaðkomandi fjárfestirinn í Facebook. Áhrifamenn í Kísildal botna lítið í stuðningi hans við Trump, sérstaklega þar sem hann er yfirlýstur frjálshyggjumaður. Þeir segja Trump engan veginn standa fyrir gildum frelsis og ábyrgðar.

Thiel flutti stuðningsræðu fyrir Trump og hefur nú orðið aukið fjárframlög sín til frambjóðandans. Nýjasta framlag hans til Trump nam 1,25 milljónum Bandaríkjadala.

Til eru fyrirtæki og frumkvöðlar í Kísildal hafa einnig neitað að stunda viðskipti við Thiel. Hann telur það þó hafa lítil áhrif á heildarafkomu sína. Að hans mati er stór hluti Bernie Sanders stuðningsmanna að fara að veita Trump atkvæði sín, þar sem Hillary Clinton og stjórnmálaelítan í Washington þykir of spillt.