Breski bankinn Standard Chartered hagnaðist um 2,76 milljarða breskra punda á síðasta ári, sem er um 30% lægri fjárhæð en á árinu 2013. BBC News greinir frá þessu.

Tap vegna vandræðalána jókst töluvert milli ára og nam nú 2,14 milljörðum punda samanborið við 1,62 milljarða síðast. Þá varð einnig samdráttur í rekstrartekjum bankans sem nemur 2%, en þær námu nú 18,23 milljörðum punda.

Afkoma bankans er töluvert undir væntingum og hefur yfirstjórn hans ákveðið að þiggja ekki bónusgreiðslur í því ljósi. Við kynningu uppgjörsins tilkynnti bankinn einnig að hann hygðist hrinda af stað áætlun sem felur í sér niðurskurð kostnaðar um 400 milljarða punda.

Gengi bréfa bankans hækkaði um 6% við tíðindin, en verð bréfanna er hins vegar um 20% lægra en það var á sama tíma fyrir ári síðan.