*

miðvikudagur, 27. október 2021
Innlent 29. júní 2021 14:38

Þing kallað saman vegna mistaka

Ekkert lagaákvæði er í gildi um listabókstafi stjórnmálasamtaka vegna mistaka við þinglok.

Jóhann Óli Eiðsson

Alþingi mun koma saman til funda þriðjudaginn 6. júlí næstkomandi til að lagfæra mistök sem urðu við lagasetningu fyrir þinglok. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Sem kunnugt er verður oft handagangur í öskjunni síðustu daga hvers kjörtímabils þegar afgreiða þarf heila halarófu af málum. Þegar verið var að samþykkja breytingar á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra urðu þau mistök að ákvæði um listabókstaf stjórnmálasamtaka í lögum um kosningar til Alþingis féll brott. Þar á meðal hvarf heimild til að safna meðmælendum rafrænt. 

Sem stendur er því ekkert lagaákvæði í gildi um listabókstafi stjórnmálaflokka og er það bagalegt þegar aðeins þrír mánuðir eru til kosninga. Sökum þess verður þing kallað saman í miðju sumarfríi svo að unnt verði að kippa þessu í liðinn.

Stikkorð: Alþingi