Þingfesting í stóra Kaupþingsmálinu var í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Sakborningar mættu í réttarsal, eins og þeim ber skylda til að gera við þingfestingu. Sakborningar lýstu sig allir saklausa í morgun. Þau sem eru ákærð í málinu eru Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Ingólfur Helgason, Einar Pálmi Sigmundsson, Birnir Sær Björnsson, Pétur Kristinn Guðmarsson, Magnús Guðmundsson, Bjarki H. Diego og Björk Þórarinsdóttir.

Málið snýst um umfangsmikla meinta markaðsmisnotkun og umboðssvik sem eiga að hafa átt sér stað á mánuðunum fyrir hrun. Í ákæru Sérstaks saksóknara segir að á 229 daga tímabili voru nettókaup eigin viðskipta bankans í svokölluðum sjálfvirkum pörunarviðskiptum yfir 25% af heildarveltu í 148 daga, yfir 50% af heildarveltu í 75 daga og yfir 75% af heildarveltu í 20 daga.

Er stjórnendum Kaupþings og starfsmönnum eigin viðskipta bankans gert að sök að hafa með markvissum hætti reynt með ýmsum hætti að stemma stigu við lækkun hlutabréfaverðs eða koma í veg fyrir hana. Þetta á að hafa verið gert með því að halda úti stórum kauptilboðum á markaði, sem voru endurnýjuð jafnharðan og þeim var tekið og með því að setja inn tilboð í uppboðum fyrir og eftir lokun markaða, en í síðasta tilvikinu sé hægt að hafa áhrif á lokaverð með litlum tilkostnaði. Lesa má meira um málið hér .

Síðar í dag verður sambærilegt mál á hendur stjórnendum og starfsmönnum Landsbankans þingfest í héraði.