Meirihluti þingflokks Vinstri grænna, styður að flokkurinn myndi ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun hefur verið andstaða við stjórnarmyndun yfir miðjuna en nú virðist sem einungis tveir þingmenn flokksins leggist alfarið gegn slíkri stjórn.

Það eru þau Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson að því er Vísir greinir frá, en flokkurinn hafði sagt fyrir kosningar að enginn flokkur væri útilokaður í samstarf. Sagði Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður flokksins það óheiðarlegt að útiloka Sjálfstæðisflokkinn nú.

„Það var niðurstaða fundarins að meirihluti þingflokks VG styður formlegar viðræður við þessa tvo flokka,“ sagði Katrín Jakobsdóttir formaður VG í kjölfar þingflokksfundar sem hófst klukkan 13:00 í dag.

Ríkisstjórnarsamstarf þessara þriggja flokka, að því gefnu að allir þingmenn flokkanna styðji ríkisstjórnina, hefði 35 þingmenn á bak við sig. Þar sem það eru 63 þingmenn á þingi gæti ríkisstjórnin staðið af sér þó tveir þingmenn VG myndu ekki styðja ríkisstjórnina.