Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var á Bessastöðum þriðjudaginn 5. apríl að funda með Ólafi Ragnari Grímssyni forseta, var þingflokkur framsóknarmanna við það að taka ákvörðun um að setja Sigmund Davíð af sem forsætisráðherra.

Einnig var ósk þingflokksins að Sigurður Ingi varaformaður og þingflokksformaður færi á fund sjálfstæðismanna til að bjarga stjórnarsamstarfinu.

Þetta kom fram í viðtali við Sigurð Inga á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Sigurður ræddi einnig formannsframboð sitt nú og tilurð þess. Sigurður Ingi segir að í vor hafi orðið trúnaðarbrestur milli Sigmundar Davíðs og þingflokksins.

Þegar Sig­urður mætti á fund­inn, sem haldinn var klukkan 13. þennan sama þriðjudag, var þingflokkurinn búinn að ákveða að setja Sigmund af sem forsætisráðherra og leita leiðta til að halda stjórnarsamstarfinu við sjálfstæðismenn áfram. Sigurður sagðist í viðtalinu í morgun hafa fengið tækifæri til að setja Sigmund Davíð inn í þróun mála þegar Sigmundur kom til baka frá Bessastöðum.

Sigurður segir að hann sé ekki viss um að Sigmundur hafi áttað sig á stöðunni og því sem gerst hafi fyrr um daginn, en að hann hafi gert Sigmundi grein fyrir því að stuðningur þingflokksins var ekki lengur fyrir hendi.

Skömmu síðar komst Sigmundur að sömu niðurstöðu, að hann myndi víkja og Sigurði Inga og Ásmundi Einari Daðasyni yrði falið að ræða við Sjálfstæðisflokkinn um áframhaldandi stjórnarsamstarf.