*

mánudagur, 24. febrúar 2020
Innlent 9. september 2019 18:03

Þingfundir stóðu tvöfalt lengur

Samtals stóðu þingfundir í 886 klukkustundir síðasta löggjafarþingi sem er ríflega tvöfalt meira en á þinginu á undan.

Ritstjórn
Þingfundir síðasta þings voru ríflega helmingi fleiri og stóðu yfir í tvöfalt lengri tíma.
Haraldur Guðjónsson

Þingfundir 149. Löggjafarþings sem lauk nú á dögunum voru samtals 133 og stóðu í rúmar 886 klukkustundir. Þetta er umtalsvert fleiri fundir en á 148. löggjafarþinginu (2017-2018) sem voru samtals 82 og stóðu í rúmar 411 klukkustundir. Þetta þýðir að þingfundir rífleag helmingi fleiri á síðasta þingi og vörðu ríflega tvöfalt lengur. 

Lengsta stóð umræðan um þriðja orkupakkann eða samtals í 147 klukkustundir en á þinginu á undan var það fjámálaáætlun sem hlaut mesta umræðu eða 33,5 klukkustundir.  

Ræðukóngur var Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, en steig 867 sinnum upp í pontu og talaði þar samtals í einn sólarhring 17 klukkustundir, 8 mínútur og 51 sekúndu. Samherjar hans í Miðflokknum skipa næstu sæti; Sigmundur Davíð talaði í einn sólarhring og 3 klukkustundir og Birgir Ísleifsson í sólarhring og tvær klukkustundir. Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, var sjötti í röðinni, en steig 515 sinnum í pontu og talaði þar í einn sólarhring og tvær klukkustundir og 45 mínútur. 

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er sá þingmaður sem talaði minnst, en hún steig 38 sinnum í pontu og talaði þar í tvo og hálfan tíma. 

Þrátt fyrir marga fundi og langar umræður voru afköst þingsins töluvert meiri en á þinginu á undan. Af 262 frumvörpum urðu alls 123 að lögum, 135 voru óútrædd, eitt var kallað aftur, tveim var vísað til ríkisstjórnarinnar og eitt ekki samþykkt. Af 152 þingsályktunartillögum voru 50 samþykktar, 99 tillögur voru óútræddar og þrem var vísað til ríkisstjórnarinnar.

Til samanburðar voru 160 frumvörp lögð fyrir 148 löggjafarþingið og af þeim urðu 84 að lögum, 75 voru óútrædd og einu var vísað til ríkisstjórnarinnar. Af 86 þingsályktunartillögum voru 32 samþykktar, 50 tillögur voru óútræddar, tvær tillögur voru felldar og tveim var vísað til ríkisstjórnarinnar.