Þjóðskrá metur svokölluð staðsetningaráhrif fasteigna. Þau má nota til að bera saman verð sambærilegra eigna í mismunandi hverfum.

Langdýrasta hverfið á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt þessum mælikvarða eru Suður-Þingholt. Sérbýli í Suður-Þingholtum er 76% verðmætara en sambærileg íbúð í meðalhverfi á höfuðborgarsvæðinu. Svæðið milli Bræðraborgarstígs og Tjarnarinnar er í öðru sæti. Þar eru íbúðir í fjölbýli 45% dýrari en sambærilegar íbúðir eru að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu.

Ódýrast á Kjalarnesi

Ef litið er út fyrir miðborgina eru nokkur hverfi áberandi dýrari heldur en svæðin í kring. Þar má nefna Fossvog, þar sem íbúðir í fjölbýli eru 30% dýrari en sambærilegar íbúðir eru að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu. Fjölbýli í miðhluta Garðabæjar er 21 prósenti yfir meðaltali höfuðborgarsvæðisins.

Ódýrasta hverfið á höfuðborgarsvæðinu, sé tekið mið af fasteignamati, er Kjalarnes þar sem íbúðir eru 32% ódýrari heldur en sambærilegar íbúðir í meðalhverfi. Sérbýli á Völlunum í Hafnarfirði er 20% ódýrara en að meðaltali og þó að fasteignamat hafi vissulega hækkað mikið í Fellahverfi er hverfið samt í þriðja neðsta sæti hvað varðar verðmat íbúða. Íbúðir í fjölbýli í Fellunum eru 8% ódýrari en sambærilegar íbúðir í meðalhverfinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .