Á síðustu dögum þingsins samþykkti Alþingi lög þar sem laun ýmissa æðstu starfa ríkisins eru ákveðin sem föst krónutala. Með lögunum hækkaði þingið laun hluta lögreglustjóra landsins en fjármálaráðherra hafði lækkað laun þeirra í upphafi árs.

Sem flestum ætti að vera kunnugt var kjararáð lagt niður fyrir nærri sléttu ári síðan. Við þá breytingu færðust æðstu forstöðumenn ríkisstofnana undir kjara- og mannauðsdeild fjármála- og efnahagsráðuneytisins og er það því fjármálaráðherra að ákveða laun þeirra.

Það var gert í upphafi þessa árs en þær fréttir flugu ekki hátt þar sem augu allra voru á brotlendingu Wow air. Tæplega 140 störf heyrðu undir umrædda skrifstofu ráðuneytisins en af þeim fengu 23 embættismenn tíu prósent launahækkun eða meira. Til að mynda hækkuðu laun veðurstofustjóra um 355 þúsund krónur, 28,6%, og ríkisskattstjóri um 244 þúsund krónur eða 16,2%. Síðarnefnda starfið hafði áður fengið launahækkun með síðustu ákvörðun kjararáðs, það er fyrir sléttu ári, en þá hækkuðu laun hans um 26,5%.

Hlut starfanna lækkaði hins vegar eða laun fyrir 36 störf. Í sumum tilfellum var launahækkun kjararáðs frá síðasta sumri dregin til baka. Mest var lækkunin hjá sýslumönnum og lögreglustjórum úti á landi. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hækkaði að vísu um 9,5% og lögreglustjórinn á Suðurnesjum stóð í stað en aðrir lækkuðu um 100 til 216 þúsund krónur.

Með lögunum sem samþykkt voru fyrir rúmri viku eru laun þingmanna, forseta Íslands, seðlabankastjóra, dómara, saksóknara og fleiri starfa ákveðin með fastri krónutölu í launum. Í öllum tilfellum er miðað við sömu krónutölu og kjararáð ákvað síðast. Launin taka breytingum einu sinni til tvisvar á ári í samræmi við breytingu á meðaltali launa starfsmanna ríkisins.

Við meðferð málsins settu lögreglustjórar út á það að ekki væri gert ráð fyrir því að laun þeirra fylgdu því fyrirkomulagi. Lögreglustjórar væru handhafar ákæruvalds í ýmsum málum og hættulegt væri að ákvörðunarvald launa þeirra væri á hendi ráðherra.

Á þetta féllst þingið og var lögreglustjórum bætt við í lögin. Í tilfelli lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja þá hélt talan sem ráðherra hafði ákveðið í upphafi árs. Launalækkun annarra lögreglustjóra gengur hins vegar til baka og fá þeir laun í samræmi við síðustu ákvörðun kjararáðs. Um hálft ár leið því frá því að laun þeirra voru lækkuð og þar til að þau voru hækkuð á nýjan leik.