„Við sem hérna sitjum vitum að matsnefndir eru ekki alveg óskeikular, ekki frekar en pólitíkin. Það er að vísu ekki flokkspólitík en það eru vísbendingar um að nefndin noti svigrúm sitt til að hygla vissum umsækjendum og setja aðra niður án þess að byggja á strangfaglegum sjónarmiðum. Stundum virðist einhverskonar kunningjapólitík ráða þar för,“ segir Haukur Logi Karlsson nýdoktor við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Hauks á málþingi sem Réttarfarsstofnun Háskólans í Reykjavík stóð fyrir í hádeginu. Umfjöllunarefnið var dómur Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í Landsréttarmálinu svokallaða.

Í erindi Hauks kom hann stuttlega inn á það að átök um skipan dómara, milli stjórnmálamanna og dómara, væri í raun jafngömul og Hæstiréttur Íslands en sá tók til starfa 1920. Í gegnum tíðina hefði pendúllinn sveiflast fram og til baka en á undanförnum árum hefði þróunin orðin sú að færa völdin frá framkvæmdavaldinu til matsnefnda, til einhverskonar efsta lags lögfræðistéttarinnar. Svipuð þróun hefði átt sér stað víðsvegar um Evrópu í kjölfar ábendinga og tilmæla frá Evrópuráðinu.

„Í dómum MDE í Ástráðssonarmálunum má sjá sérkennilega klausu að áskilnaðurinn um skipan með lögum nái einnig til ótilhlýðilegra áhrifa dómsvaldsins á skipun dómara. Þetta er sérstakt og jafnvel svolítið einkennileg klausa í ljósi þess að málið snerist ekkert um það. […] Það má í raun segja að niðurstaða MDE sé að pólitísk yfirvöld eigi ekki að skipta sér af skipun dómara og að dómsvaldið eigi heldur ekki að gera það. Það sé löggjafans að mæla fyrir um fyrirkomulagið með almennum hætti og þeim tilmælum skal nefndin fylgja,“ segir Haukur.

Landsréttarmálið allt væri hálfgerð innansveitarkróníka, af bestu eða verstu gerð, sem hefði óvart endað sem prófmál á skipan evrópskra dómara. Það væri mikil einföldun að segja að það snerist eingöngu um „valdabaráttu siðspilltra ráðherra og dyggðugu matsnefndarinnar með faglegu ráðleggingarnar.“ Líkt og í öllum góðum króníkum væru skilin milli góðs og ills óljós og „söguhetjurnar dyggðugar og breiskar á víxl“. Lausn á þessu áratugagamla gagnkvæma vantrausti milli dómstóla og framkvæmdavaldsins blasi hins vegar við.

„Sú spurning sem vaknar hjá mér er hvort MDE sé að gauka að okkur ákveðinni lausn á sorgum innansveitarkróníkunnar, það er hvort rétt sé að löggjafinn sníði matsnefndinni þrengri stakk og minnki svigrúm hennar. Við það eykst traust stjórnmálanna á störfum nefndarinnar og minnkar líkurnar á því að hún blandi sér í málið. […] Við höfum lent í þessari stöðu vegna gagnkvæms vantrausts milli dómsvaldsins og framkvæmdavaldsins, um að hvor aðili myndi nota áhrif sín á frumskipun Landsréttar. Ítarlegri lög, um hvaða kröfur skuli gerðar til hæfni dómara á hverju stigi, væru eðlilegt viðbragð við slíku vantrausti,“ segir Haukur.