*

laugardagur, 20. júlí 2019
Innlent 3. nóvember 2016 10:58

Þingið verður að virkja 50. greinina

Dómstóll í Bretlandi úrskurðar að þjóðaratkvæðagreiðslan um úrsögn landsins úr ESB sé ekki nóg heldur þurfi samþykki þingsins.

Ritstjórn
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands hugðist virkja grein 50 í Lisbon sáttmálanum í krafti valds ríkisstjórnarinnar og þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
epa

Yfirréttur Bretlands hefur úrskurðað að ríkisstjórn landsins hafi ekki vald til að ákveða upp á sitt einsdæmi útgöngu úr Evrópusambandinu, þrátt fyrir að þjóðin hafi ákveðið útgöngu með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Samkvæmt úrskurði dómstólsins hefur ríkisstjórnin ekki heimild til að virkja 50. grein Lisbon sáttmálans sem setur af stað tveggja ára útgönguferli úr Evrópusambandinu nema með samþykki þingsins.

Úrskurði áfrýjað til hæstaréttar

Þeir sem fóru með málið fyrir réttinn hafa þannig tekist að stöðva það að forsætisráðherrann, Theresa May geti tekið ákvörðun um það hvenær hún virkji greinina þegar ríkisstjórninni hentar. Ríkisstjórnin hefur þegar sagt að hún muni áfrýja úrskurðinum til hæstaréttar landsins.

Forseti dómstólsins segir að rök ríkisstjórnarinnar séu „í andstöðu við grundvallaratriði stjórnkerfisins sem sé fullveldi þingsins,“ sagði Lord Thomas, forseti dómstólsins.

„Rétturinn samþykkir ekki rökin sem ríkisstjórnin hefur sett fram. Það er ekkert í lögunum frá 1972 þeim til stuðnings.“

Vilja beygja lýðræðislegan vilja þjóðarinnar

Gina Millar, sem leiðir baráttuna gegn úrsögninni hefur verið sökuð um það af dómsmálaráðherra landsins, Jeremy Wright, að vilja beygja lýðræðislegan vilja bresku þjóðarinnar. Um væri að bakdyraleið til að reyna að komast hjá ákvörðun þjóðarinnar í atkvæðagreiðslunni um úrsögnina.

Hópurinn sem að dómsmálinu stendur kallar sig People´s Challenge en hann hefur safnað meira en 160 þúsund pundum, eða um 22 milljónum til að standa undir lögfræðikostnaðinum.

Stikkorð: ESB Evrópusambandið Bretland Brexit Theresa May