Forsætisráðherra Danmerkur, Lars Lokke Rasmussen, leiðtogi Venstre, hefur boðað til þingkosninga 5. júní næstkomandi, 10 dögum eftir að evrópukosningar verða haldnar í landinu.

Samkvæmt skoðanakönnunum gæti meirihluti borgaraflokkanna í landinu fallið í kosningunum, en forsætisráðherrann þurfti að boða til þeirra í síðasta lagi 17. júní næstkomandi, en margir höfðu búist við að þær yrðu haldnar samhliða kosningunum til Evrópuþingsins 26. maí næstkomandi.

Í yfirlýsingu Rasmussen sagði hann heiminn á heljarþröm upplausnar, og listaði hann upp allt frá loftlagsbreytinga til farendakrísu þeirrar sem mikill fjöldi hælisleitenda í Evrópu hefur orsakað í stjórnmálum álfunnar, sem ástæðu þess að landið þyrfti áfram skýra og ábyrgan leiðtoga.

Samkvæmt Bloomberg fréttastofunni virðist þó Mette Frederiksen, leiðtogi Sósíaldemókrata verið í stöðu til að ná meirihlutanum, en hún hefur fært flokkinn í átt til ábyrgari innflytjendastefnu en fyrirrennarar hennar. Á sama tíma hafa fleiri flokkar barist um hylli kjósenda sem vilja harðari innflytjendastefnu, en þeir sem nú standa að ríkisstjórninni.

Samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var í lok síðasta mánaðar er vinstriblokkin líkleg til að fara með sigur af hólmi í kosningunum, en ríkisstjórn landsins í dag samanstendur af þremur flokkum hægriblokkarinnar með stuðningi Danska þjóðarflokksins.

Samkvæmt könnuninni skiptist stuðningur við flokkana í dag þannig, samanborið við kosningarnar árið 2015:

Vinstriblokkin:

  • Sósíaldemókratar - Fengu 26,0% og 47 sæti, en mælast nú með 28,7%
  • Rauðgrænir - Fengu 7,7% og 14 sæti, en mælast nú með 8,9%
  • Sósíalliberals - Fengu 4,5% og 8 þingmenn, en mælast nú með 7,0%
  • Sósíalíski þjóðarflokkurinn - Fengu 4,1% og 7 sæti, en mælast nú með 6,2%
  • Valkosturinn - Fengu 4,7% og 9 sæti, en mælast nú með 4,3%.

Hægriblokkin:

  • Venstre (Frjálslyndi flokkurinn) - Fengu 19,2% og 34 sæti, en mælast nú með 16,9%
  • Danski þjóðarflokkurinn - Fengu 20,8% og 37 sæti, en mælast nú með 14,4%
  • Íhaldsflokkurinn - Fengu 3,3% og 6 sæti, en mælast nú með 4,4%
  • Nýi Borgaraflokkurinn - Ekki á þingi, en mælast með 4,1%
  • Frjálslynda bandalagið - Fengu 7,4% og 13 sæti, en mælast nú með 3,2%