Í dag fara fram þingkosningar í Grikklandi og líklegt þykir að úrslitin verði söguleg. Stjórnarandstöðuflokkurinn Syriza hefur mælst með mesta fylgið í könnunum í aðdraganda kosninganna, en fari svo að flokkurinn fái meirihluta gæti það þýtt að Grikkland yfirgefi evrusvæðið.

Í dag verður kosið um hvaða 300 einstaklingar muni mynda gríska þingið á næsta kjörtímabili og tæplega 10 milljónir manna eru á kjörskrá. Tveir flokkar munu berjast um megnið af atkvæðunum, annars vegar núverandi stjórnarflokkurinn Nýtt lýðræði og hins vegar vinstri flokkurinn Syriza.

Síðarnefndi flokkurinn vill láta af aðhaldsaðgerðum sem núverandi stjórnvöld hafa staðið fyrir og afskrifa hluta lána frá erlendum aðilum, til að mynda frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, ESB og Seðlabanka Evrópu, sem eru til komin vegna fjárhagsaðstoðar í kjölfar efnahagshrunsins. Margir hafa lýst yfir áhyggjum af því að Grikkir muni hrökklast úr evrusamstarfinu ef Syriza vinnur sigur í kosningunum. Nýlega var til dæmis haft eftir Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, að hún vildi að Grikkir yfirgæfu evrusvæðið ef þeir kysu Syriza.

Alþjóðlegir lánveitendur Grikklands hafa sett aðhaldsaðgerðir sem skilyrði fyrir efnahagsaðstoð. Því hefur verið mikill niðurskurður í landinu á síðustu árum. Frá því Grikkir fengu fyrsta neyðarlánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fyrir fimm árum hefur hagkerfið dregist saman um fjórðung og í dag er atvinnuleysi í kringum 25 prósent.