Undanfarið hefur afgreiðslutími þinglýstra skjala hjá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu verið allt að 12 virkir dagar. Segja þeir ástæðuna vera að í kjölfar verkfalla BHM og SFR í sumar hafi safnast upp skjöl til þinglýsingar svo biðtími eftir þinglýstum skjölum hafi lengst umtalsvert.

„Embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu vinnur nú að því að stytta afgreiðslutíma þinglýstra skjala hjá embættinu niður í tvo til þrjá virka daga en hann hefur undanfarið verið allt að 12 virkir dagar.

Embættið fékk ráðgjafa til að fara yfir verklag og innanríkisráðuneytið hefur samþykkt að veita embættinu viðbótarfjárveitingu til að ná þessu markmiði,“ segir í frétt Innanríkisráðneytisins .

„Til að ráða bót á þessu fékk sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu ráðgjafa frá KPMG til liðs við þinglýsingasvið embættisins til að greina stöðuna, fara yfir verklagið og leggja til úrbætur í samvinnu við starfsmenn þinglýsingasviðs.

Markmið sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu er að þinglýsingar verði jafnan afgreiddar á tveimur til þremur virkum dögum. Í kjölfar þessa verkefnis og með samlegðaráhrifum við flutning embættisins í nýtt húsnæði hefur verklag verið endurbætt og afköst hafa aukist.

Hefur þegar styst niður í 9 daga

Þegar hefur náðst sá árangur að afgreiðsla þinglýsinga hefur styst úr 12 virkum dögum í 9. Með þriggja milljóna króna viðbótarfjárveitingu frá innanríkisráðuneytinu hefur embættið m.a. ráðið lögfræðing með reynslu af þinglýsingum til starfa tímabundið.

Er þess vænst að þessar aðgerðir allar stytti þinglýsingartímann niður í tvo til þrjá virka daga og að því markmiði verði náð sem fyrst á nýju ári.

Afgreiðslu í Skógarhlíð brátt lokað til viðbótar við skrifstofur í Dalvegi og Bæjarhraun

Afgreiðsla sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu er nú að Hlíðasmára 1 í Kópavogi og hefur skrifstofum embættisins við Dalveg og Bæjarhraun verið lokað.

Skrifstofunni við Skógarhlíð verður lokað á næstu dögum þegar Fjölskyldusvið, sem hefur með höndum fjölskyldumálefni, dánarbú, sifjamál, lögráðamál og sáttameðferð, flytur í Hlíðasmára 1.“